Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Ekki er án fordæma að Alþingi dragist á langinn og jafnvel nokkra daga inn í júlí, þótt það sé vissulega fátítt. Þar hefur hins vegar ekki rætt um samfellt þing fram eftir sumri án þess að þinglok séu í augsýn.
Hins vegar má nefna sérstakt þinghald að sumri. Auk stöku hátíðarfunda eru augljósustu dæmin sumarþingin 1931 og 2009. Það voru hins vegar ný þing eftir óreglulegar kosningar, en ekki samfellt þing frá vetrinum, eins og stefna kann í nú.
Í júní 1931 var gengið til kosninga eftir þingrof Tryggva Þórhallssonar og í kjölfarið sigldi 41 dags sumarþing sem slitið var seint í ágúst. Eftir hrunskosningarnar í apríl 2009 var þing kallað saman 15. maí og stóð til 28. ágúst, en á 46 þingfundadögum fór mestur tími í að ræða aðildarumsókn að Evrópusambandinu og Icesave, sællar minningar.
Svipaða sögu er að segja eftir alþingiskosningar og stjórnarskipti 2013, en þá var sumarþing sett snemma í júní og stóð fram til 5. júlí þegar því var frestað fram til september og lauk sumarþingi 18. september. Nýtt löggjafarþing var svo sett 1. október 2013.
Tveimur árum síðar, 2015, teygðist úr þinginu til 3. júlí. Þá voru haldnir sérstakir fundir hinn 6. júlí 2021 vegna lagfæringa á kosningalögum.
Ákvæði um sumarhlé þingsins frá 1. júlí til 10. ágúst kom inn í þingsköp 2007, en gert ráð fyrir svokölluðum „septemberstubbi“ til að ljúka við verkefni vorþings. Það hefur svo verið með ýmsu móti í framkvæmd, en þingið sjálft ræður því hversu lengi er fundað og það stendur uns því er frestað.