Ísafjörður Heimamaður leggur spurningu fyrir þær Örnu Láru Jónsdóttur og Kristrúnu Frostadóttur á opnum fundi Samfylkingar í Edinborgarhúsi.
Ísafjörður Heimamaður leggur spurningu fyrir þær Örnu Láru Jónsdóttur og Kristrúnu Frostadóttur á opnum fundi Samfylkingar í Edinborgarhúsi. — Morgunblaðið/Aðsend mynd
Veiðigjaldafrumvarpið og gjaldtaka af skemmtiferðaskipum var það sem mest var rætt á opnum fundi Samfylkingarinnar á Ísafirði í gær. Þar sat Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fyrir svörum ásamt Örnu Láru Jónsdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóra á Ísafirði

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Veiðigjaldafrumvarpið og gjaldtaka af skemmtiferðaskipum var það sem mest var rætt á opnum fundi Samfylkingarinnar á Ísafirði í gær. Þar sat Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fyrir svörum ásamt Örnu Láru Jónsdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóra á Ísafirði.

Húsfyllir var í sal í Edinborgarhúsinu, liðlega hundrað manns, en segja má að áhyggjur af því að hin vestfirska uppsveifla undanfarinna ára kunni að vera á enda hafi verið hinn rauði þráður. Góður andi var í salnum og gestunum vel tekið, þó að ljóst væri af undirtektum fundargesta að fyrirætlanir um stóraukna gjaldheimtu voru þeim ekki mörgum að skapi.

Landsbyggðarskattar voru flestum fyrirspyrjendum ofarlega í huga, hvort sem um ræddi hækkun veiðigjalda, gjaldtöku af skemmtiferðaskipum, fiskeldisgjald, kílómetragjaldið eða fyrirhugaðar álögur á ferðaþjónustu, en flestir lögðu orð í belg um tvö fyrstnefndu gjöldin.

Margir lýstu ugg um að uppsveiflan á Vestfjörðum undanfarin ár yrði senn á enda fyrir vikið. Nefnt var að veiðigjaldahækkunin ein myndi flytja um 5-600 milljónir króna í viðbót frá Vestfjörðum og „suður“.

Forsætisráðherra kvaðst hafa skilning á því að gjald á farþega skemmtiferðaskipa hefði verið „of bratt“, en vildi þó engu lofa í þeim efnum; málið væri órætt í ríkisstjórn. Hins vegar gaf hún lítið fyrir áhyggjur af öðrum gjöldum, sagði veiðigjöld einungis leggjast á hagnað og hún læsi úr ársreikningun stærri útgerðarfyrirtækja að þau hefðu vel efni á að borga.

Allnokkrir létu í ljós vantrú á að vandað hefði verið til verka við gerð frumvarpsins og nefndu til marks um það hve útreikningar hefðu verið á reiki, þrír útreikningar á þremur mánuðum, sem allir hefðu verið sagðir hinir einu réttu.

„Þarna er um milljarða breytingar að ræða og maður spyr sig, erum við að flýta okkur of mikið, hvað liggur á? Ef við ætlum að ná þessu á næstu áramótum, er þá ekki alveg rými til þess að fara betur í gegnum þetta og tapa ekki haus?“ spurði Gauti Geirsson, fulltrúi Sóknarhóps Vestfjarðastofu.

Guðni Einarsson hjá Íslandssögu á Suðureyri í Súgandafirði lýsti því hvernig fyrirtækið hefði á rúmum aldarfjórðungi tapað öllu eigin fé þrisvar, en jafnan náð að rísa upp aftur. Útlitið hefði þó aldrei verið jafndökkt og nú.

„Miðað við fyrirliggjandi tölur atvinnuveganefnar sjáum við 27% hækkun [veiðigjalda] í okkar fyrirtæki. Hækkun, sem Arna Lára segir aðeins vera 6,7% og finnst lítið til koma. […] Mér finnst þessi 6,7% hækkun Örnu Láru mikil þegar ég á ekki fyrir henni.“

Kristrún svaraði og rakti tilurð kvótakerfisins, sem hefði í raun lokað aðgengi í greinina, sem orðið hefði til hagsbóta, en í því fælist margnefnd auðlindarenta. Aðrir máttu færa fórnir, en þyrftu áfram sína vegi og heilbrigðisþjónustu.

Forsætisráðherra sagði nauðsynlegt að fólk yrði sammála um að auðlindarentan væri til staðar, en svo mætti takast á um hve há hún ætti að vera. Það væri hin raunverulega deila.

Henni þótti lítið til um sögur um að fólk kynni að missa vinnuna, það væri þá á ábyrgð þeirra sem segjast „ætla að skella í lás á morgun.“

Kristján Jóakimsson hjá hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal brást við þessu og fannst forsætisráðherra hafa skautað hratt yfir. Gjaldahækkunin væri há og fyrirvaralaus, en verst væri að tölurnar væru mjög á reiki.

„Það eru einhverjar fullyrðingar þarna hjá þér, sem standast ekki,“ sagði hann og mótmælti því að verið væri að „leiðrétta“ rangan verðgrunn, sem forsætisráðherra sagði byggjast á innbyrðis viðskiptum sjávarútvegsfyrirtækja við sjálf sig. Verðið væri upprunnið hjá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem væri á vegum hins opinbera, væri inni í kjarasamningum og tæki mið að verði erlendis.

„Þetta er enginn einleikur hjá sjávarútvegsfyrirtækjum,“ sagði hann og Kristrún játti því.

Höf.: Andrés Magnússon