Stækkun Byggja á við Hótel Glym í Hvalfirði og bæta við 17 smáhýsum.
Stækkun Byggja á við Hótel Glym í Hvalfirði og bæta við 17 smáhýsum. — Ljósmynd/Facebook-síða Hótel Glyms
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er mjög áhugavert svæði og er að vaxa mikið,“ segir Styrmir Þór Bragason fjárfestir. Styrmir er eigandi Hótel Glyms í Hvalfirði en þar er fyrirhuguð mikil uppbygging, eins og kom fram í Morgunblaðinu í byrjun mánaðarins

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er mjög áhugavert svæði og er að vaxa mikið,“ segir Styrmir Þór Bragason fjárfestir.

Styrmir er eigandi Hótel Glyms í Hvalfirði en þar er fyrirhuguð mikil uppbygging, eins og kom fram í Morgunblaðinu í byrjun mánaðarins. Samkvæmt áformum sem kynnt hafa verið í skipulagsgátt á að reisa þar 17 smáhýsi, svokölluð norðurljósahús, sem rúmi hvert 2-3 gesti. Þá verður byggt við hótelið sjálft, allt að eitt þúsund fermetrar á 1-2 hæðum. Þar verða 30 hótelherbergi og spa-aðstaða. Auk þessa bætast við 34 bílastæði og allt að 250 fermetra starfsmannahús.

Styrmir hefur komið víða við í atvinnulífinu, var meðal annars forstjóri MP banka og Arctic Adventures og nýverið framkvæmdastjóri knattspyrnufélagsins Vals. Hann festi kaup á Hótel Glym fyrir um tveimur árum. Ekki hefur verið hótelrekstur þar síðustu tvö árin en Vinnumálastofnun tók Hótel Glym á leigu í allt að 24 mánuði til að hýsa umsækjendur um alþjóðlega vernd. Sá samningur rennur út í árslok, að sögn Styrmis, og því skoðar hann nú næstu skref.

„Það er ekki búið að ákveða neitt með þessa stækkun en það er auðvitað þannig að stærri rekstrareining er hagkvæmari,“ segir Styrmir. Hann segir jafnframt að fyrri eigendur hafi áður skoðað stækkun og hann haldi einfaldlega áfram með pælingar þeirra.

„Það er skortur á hótelgistingu á svæðinu. Ég tel að þarna leynist tækifæri.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon