Sumarfrí Guðmundur Ari Sigurjónsson segir reynt að búa um hnúta í stærri málum þannig að allir flokkar geti séð fram á farsæl þinglok.
Sumarfrí Guðmundur Ari Sigurjónsson segir reynt að búa um hnúta í stærri málum þannig að allir flokkar geti séð fram á farsæl þinglok. — Morgunblaðið/Karítas
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir stemninguna í þinginu góða nú um mundir þegar veiðigjaldafrumvarpið umdeilda er til umræðu. Hann gerir fastlega ráð fyrir þinglokum fyrir mánaðamót

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir stemninguna í þinginu góða nú um mundir þegar veiðigjaldafrumvarpið umdeilda er til umræðu. Hann gerir fastlega ráð fyrir þinglokum fyrir mánaðamót.

„Það er langskemmtilegast að vera á þingi þegar verið er að fjalla um mál sem fólk er pólitískt ósammála um, í stað einhverra praktískra mála eða lagatæknilegra flækjumála. Ég skynja það að fólk sé að njóta þess að eiga í alvöru umræðu í þingsal þar sem fólk finnur til sín í þeirri umræðu.“

Guðmundur Ari segir málamiðlunarumleitanir minnihluta og meirihluta ganga vel.

„Það eru stór mál sem þarf að vinna áfram og við erum að skoða ákveðnar sviðsmyndir í þeim til að liðka fyrir og sjá hvernig hægt er að búa um hnútana þannig að allir flokkar sjái fyrir sér farsæl þinglok.“

Hann segir það myndu koma sér mjög á óvart ef þing myndi ekki klárast í þessum mánuði.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að forseti fer með dagskrárvaldið, þó að þingmenn geti vissulega sagt sína skoðun á því hvernig þeir sjá fyrir sér framhald þinghaldsins. Ég er bjartsýnn, ekki síst í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast.“

Helstu sjónarmið í veiðigjaldamálinu séu að koma fram, en þau séu ótvírætt mesti málefnalegi skaflinn sem þingheimur standi frammi fyrir.

„Ég held að veiðigjaldaumræðan þurfi ekkert langan tíma. Einhverjir þingmenn vilja stimpla sig inn í umræðuna en svo tel ég bara eðlilegt að málið haldi áfram sinni þinglegu meðferð. Að stóru málunum loknum held ég að restin muni leysast hratt og vel með talsmönnum flokkanna í hverju máli.

Fram hefur komið að ekki verði hvikað frá því að afgreiða veiðigjaldafrumvarpið fyrir þinglok. En hvað með bókun 35?

„Við teljum afar mikilvægt að það klárist, bæði fyrir hagsmuni Íslands til að eyða þessari lagalegu óvissu sem hefur verið uppi vegna bókunarinnar og fyrir þá sem staðið hafa daga og nætur í þingsal að færa rök fyrir máli sínu. Að þeir fái líka að sýna með atkvæði sínu hvar þau standa í málinu.“

Höf.: Andrea Sigurðardóttir