Hólavallagarður í Vesturbæ Reykjavíkur var í gær friðlýstur sem menningarminjar.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, staðfesti friðlýsingu í gærmorgun í garðinum og flutti ávarp fyrir þá sem leið sína lögðu í garðinn.
Jóhann sagði það viðeigandi að garðurinn hefði verið friðlýstur á sjálfan kvenréttindadaginn, enda hefðu margar merkar konur verið lagðar til hinstu hvílu í garðinum. Þar á meðal Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Ingibjörg H. Bjarnason og Katrín Thoroddsen.
Rúnar Leifsson forstöðumaður Minjastofnunar segir friðlýsinguna fyrst og fremst vera táknræns eðlis fremur en að hætta hafi steðjað að garðinum.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fv. forseti Alþingis, átti frumkvæði að friðlýsingunni árið 2007, en Kirkjugarðar Reykjavíkur óskuðu hennar af Minjastofnun árið 2023.