Eystrasalt Fylgst er náið með rússneskum skipum í Eystrasalti.
Eystrasalt Fylgst er náið með rússneskum skipum í Eystrasalti. — AFP/Jonathan Nackstrand
Fjórtán ríki í norðurhluta Evrópu samþykktu í gær að styrkja samstarf sitt til þess að takast á við hinn svonefnda „skuggaflota“ Rússa, en svo nefnast olíuflutningaskip sem þeir hafa verið sakaðir um að nýta til þess að flytja út rússneska olíu í trássi við refsiaðgerðir vesturveldanna

Fjórtán ríki í norðurhluta Evrópu samþykktu í gær að styrkja samstarf sitt til þess að takast á við hinn svonefnda „skuggaflota“ Rússa, en svo nefnast olíuflutningaskip sem þeir hafa verið sakaðir um að nýta til þess að flytja út rússneska olíu í trássi við refsiaðgerðir vesturveldanna.

Í tilkynningu danska utanríkisráðuneytisins kom fram að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hefðu fundað með Frökkum, Þjóðverjum, Bretum, Belgum, Hollendingum og Pólverjum og hefðu ríkin fjórtán samþykkt m.a. að koma sér saman um verklag í samræmi við alþjóðalög til þess að styrkja aðgerðir sínar gegn skuggaflotanum.

Kom m.a. fram í tilkynningunni að ef skip sigldu ekki undir gildu flaggi í Eystrasalti og Norðursjó myndu ríkin grípa til „viðeigandi aðgerða samkvæmt alþjóðalögum“ til þess að takast á við þau. Var minnt á það í tilkynningunni að skip sem sigldu án ríkisfangs eða undir fölsku flaggi nytu ekki sömu réttinda og önnur samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þá sagði að ýmsir áhættuþættir fylgdu skuggaflotanum, og voru þar nefnd möguleg umhverfisáhrif, sem og ógnir við öryggi á höfum og við mikilvæga neðansjávarinnviði. Hefðu þessir þættir áhrif langt út fyrir norðurhöf og skoruðu ríkin því á önnur að taka þátt í aðgerðum gegn skuggaflotanum með sér.

Atlantshafsbandalagið greindi frá því í janúar að það hygðist herða eftirlit í Eystrasalti vegna fjölda atvika á síðustu mánuðum þar sem neðansjávarkaplar skemmdust, en talið er að allavega hluti þeirra hafi verið vegna vísvitandi skemmdarverka af hálfu Rússa.