Einar Hjálmar Jónsson
Einar Hjálmar Jónsson
En þá ber svo við að 67 ára og eldri fá aðeins að liggja í sex mánuði á sjúkrabeði án greiðslu. Eftir það skal greiða fyrir þjónustuna.

Einar Hjálmar Jónsson

Hagsmunabaráttu eldri borgara hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár. Aldurshópurinn er mun virkari en áður og ákveðinn í að krefjast lagfæringa á ósanngjarni meðferð ríkisvaldsins sem í einhverjum tilfellum gæti jaðrað við brot á mannréttindum. Af nógu er að taka en sú barátta gengur þó ekki þrautalaust fyrir sig.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur um langt skeið staðið fyrir öflugu starfi meðal eldri flokksmanna innan landssambands eldri sjálfstæðismanna (SES) og í svæðisbundnum félögum. Nýjasta félagið á þeim vettvangi er Félag eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík (FES-R). Félagið hefur m.a. stutt við kröfur Landssambands eldri borgara um lækkun skerðinga á framlögum Tryggingastofnunar og hækkun frítekjumarks lífeyris.

Krafa til einstaklinga eldri en 70 ára um að endurnýja ökuskírteini árlega er gott dæmi um kröfu til ökumanna sem er byggð á úreltu mati á heilsufari þessa tiltekna aldurshóps. Krafan er verulega íþyngjandi og sendir auk þess skökk skilaboð til aldurshópsins. Heilsufar eldra fólks um þessar mundir er almennt það gott að svona krafa er fullkomlega óþörf.

Heilbrigðiskerfið meðhöndlar aldraða á annan hátt en yngra fólk. Allir geta veikst sama á hvaða aldri er og sumir þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsi. En þá ber svo við að 67 ára og eldri fá aðeins að liggja í sex mánuði á sjúkrabeði án greiðslu. Eftir það skal greiða fyrir þjónustuna.

Hjúkrunarheimili voru mikilvægt framfaraskref í þjónustu við aldraða. Þau voru búsetuúrræði fyrir þá sem voru að tapa færni til að halda sitt eigið heimili en væru að öðru leyti sjálfbjarga með stuðningi.

Hjúkrunarheimili hafa á sl. árum þróast í að vera eins konar framlenging á sjúkrahúsum vegna vaxandi skorts á legurýmum þar. Einstaklingar eru margir orðnir svo veikir þegar þeir leggjast inn, að þeir ættu í raun að dvelja áfram á sjúkrahúsi. En sjúkrahúsin leggja áherslu á að færa aldraða yfir á hjúkrunarheimili til að rýma fyrir nýjum sjúklingum og heilbrigðiskerfið fagnar, því að við þann flutning myndast strax greiðsluskylda sjúklings fyrir umönnun. Ekki þó fyrir heildarkostnaði heldur er tekinn upp í kostnað allur lífeyrir viðkomandi utan lítils háttar vasapenings. Afleiðingin er í mörgum tilfellum mjög erfið fyrir maka þegar viðkomandi er sviptur þeim tekjum. Áfram þarf jú að greiða af húsnæði og fyrir annan rekstur heimilis.

Höfundur er formaður Félags eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Höf.: Einar Hjálmar Jónsson