Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir
Í dag hafa þessar aðgerðir aukist til muna og því er venjulegt fólk farið að taka eftir breytingunum á himni. Heiðbláminn virðist vera horfinn.

Marta Eiríksdóttir

Þegar ég var að alast upp í Keflavík á sjöunda áratugnum sá maður mjög oft hvítar rákir á himni. Þessar rákir voru eftir herþotur sem flugu yfir bæinn en gufuðu fljótt upp enda vatnsgufa að einhverju leyti. Í dag leysast þessar rákir ekki upp, heldur virðast þær fletjast út og mynda hvíta móðu á himni, úr verður undarlegt skýjafar.

Hefurðu tekið eftir þessu?

Sjaldan sést heiðblár hreinn himinn í dag, nema kannski eldsnemma að morgni. Svo birtast rákirnar. Blái liturinn á himni virðist dofna, alltaf einhver hvít slikja yfir öllu. Sólin er falin á bak við hvíta móðu. Erfiðara að sjá fjöllin í fjarska.

Ég er mikil útivistarmanneskja og furðaði mig auðvitað á þessum breytingum himinsins. Hef því verið að kynna mér hvað gæti legið að baki. Á ensku kallast þetta „geo engineering“ og er nú mikið til umræðu erlendis. Rákirnar á himni eru sem sagt kallaðar á ensku „chemitrails“ eða efnarákir. Menn hafa víst lengi verið að gera tilraunir, reynt að hafa áhrif á veðurfar jarðarinnar, í kyrrþey án vitundar almennings. Tilraunirnar byrjuðu smátt á sjöunda áratug síðustu aldar, sumir segja fyrr, jafnvel í kringum 1940 þegar vísindamenn uppgötvuðu að þeir gætu haft áhrif á veðurfar til dæmis með álögnum.

Í dag hafa þessar aðgerðir aukist til muna og því er venjulegt fólk farið að taka eftir breytingunum á himni. Heiðbláminn virðist vera horfinn.

Hvar er umræðan á Íslandi?

Almenningur um allan heim er að átta sig og byrjaður að mótmæla þessum aðgerðum, sem gætu jafnvel verið að ýta undir loftslagsbreytingar. Að þetta fúsk manna með veðrið sé jafnvel raunveruleg ástæða loftslagsbreytinga.

Nýr heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna hefur ávarpað þessar áhyggjur almennings og ætlar að rannsaka hvað býr að baki. Umræðan er farin af stað þar í landi.

Í byrjun apríl á þessu ári kom fram tillaga eða reyndar krafa frá öldungadeildarþingmanninum Ileana Garcia í Flórída um rannsókn á þessu fyrirbæri. Hann sagði orðróm vera á kreiki meðal almennings varðandi þessar efnaaðgerðir í himinhvolfi, sem hefðu áhrif á hitastig, veðurfar og það magn sólarljóss sem kæmist til jarðar. Garcia sagði áhyggjufullan almenning eiga rétt á að fá svör frá yfirvöldum um hvort verið væri að dimma fyrir sólina. Hvort þetta væru samsæriskenningar eða hvort eitthvað vafasamt lægi að baki. Svara þyrfti ákalli og áhyggjum almennings. Flórídaríki væri stór ávaxtaframleiðandi sem treysti á náttúrulega sólargeisla.

Þar er fyrsta aðgerð yfirvalda komin til framkvæmda. Til að komast að því hvort verið sé að úða í háloftum einhverjum vafasömum efnum, trufla náttúrulegt veðurfar og jafnvel ýkja veðrið þurfa allir flugvellir í Flórída frá 1. október 2025 að tilkynna hvers konar flugvélum sé verið að fljúga og hvað sé innanborðs. Ef þessum skýrslum verður ekki skilað mun viðkomandi flugvöllur ekki hljóta ríkisstyrk til starfseminnar.

Ísland bannar ekki þessar aðgerðir

Ég furða mig á því hvers vegna engar umræður eru um þetta mál á Íslandi en vélarnar sem úða þessum efnum fá greinilega leyfi til að fara í gegnum íslenska fluglögsögu daglega. Það sjáum við skýrt á himninum yfir landinu okkar.

Auðvitað eru einhverjir sem vilja kveða þessa umræðu strax í kútinn og réttlæta þessar rákir án rannsókna. Segja þetta rákir eftir venjulegar flugvélar.

Það passar ekki, segir konan sem ólst upp við gný herþotna og man vel eftir heiðbláum tærum himni á Íslandi. Málefnið krefst umræðu á opinberum vettvangi en ekki þöggunar.

Höfundur er rithöfundur og bókaútgefandi.

Höf.: Marta Eiríksdóttir