Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Norskur makríll er miklu meiri að gæðum en sá sem íslensk skip veiða og því fæst að jafnaði tvöfalt hærra verð fyrir hann. Það er stutt bæði markaðsgögnum og vísindalegum rannsóknum og ætti því að vera nokkuð óumdeilt.
Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis féllst í áliti sínu, sem kynnt var á Alþingi á miðvikudag, á að makrílafli íslenskra skipa væri af náttúrulegum ástæðum lakari en makrílafli norskra skipa og því væri óeðlilegt að miða við norskt uppboðsverð til þess að reikna út „raunvirði“ aflans og leggja á veiðigjald miðað við það.
Meirihlutinn lagði því til að áfram yrði stuðst við norska markaðsverðið að frádregnum 20% til að endurspegla minna verðmæti makríls við Íslandsstrendur.
Í þeirri meintu málamiðlun felst þó lítill afsláttur þegar allt að helmingsmunur er á verðinu. Íslenskur makrílafli yrði samkvæmt því skattlagður eins og hann væri 60% verðmætari en hann í raun og veru er. Við þau býti kunna útgerðir að standa frammi fyrir spurningunni hvort það svari kostnaði og fyrirhöfn að halda til makrílveiða.
Margháttaðar efasemdir
Mikil gagnrýni hefur komið fram á frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalds, sem virðist hafa verið unnið í óþarflega miklum flýti. Hún hefur ekki síst beinst að fyrirætlunum um að miða við fiskverð á uppsjávarafla í Noregi til þess að komast að „réttu“ virði uppsjávarfisks íslenskra skipa.
Annars vegar hefur verið fundið að hinu almenna, að óeðlilegt sé að miða skattheimtu á Íslandi við aðstæður í öðru landi, sem aukinheldur geti orðið fyrir óviðráðanlegum áhrifum af gengisþróun og fleiri þáttum.
Þá hefur verið bent á að ekki ræði um sams konar afla, sérstaklega hvað makrílinn varðar. Veiðar á misjöfnum tíma, þar sem ástand fisksins, meðferð og gæði aflans eru ólík, þýði að verðið sé gerólíkt.
Rannsókn sýnir mikinn mun
Þetta eru ekki ný sannindi. Í samanburðarrannsókn á makrílveiðum á Íslandi og í Noregi, sem dr. Bernt Arne Bertheussen, prófessor við Norðurslóðaháskólann í Tromsø (UiT) stýrði árið 2020, var meginniðurstaðan einmitt sú, að þrátt fyrir að þar væru báðar þjóðir að nýta sama stofn væri afar mikill munur á afrakstrinum.
Norðmenn fengju þar staðfastlega ár eftir ár mun hærra verð fyrir makríl en Íslendingar. Aðalástæðan væri gæðamunur, en muninn mætti rekja til líffræðilegra aðstæðna, sem hvorug þjóðin réði nokkru um. Náttúruleg gæði makrílsins, sem einkum felast í fituinnihaldi, væru einfaldlega mun meiri þegar stofninn gengi inn í norska lögsögu. Við því samkeppnisforskoti ættu Íslendingar ekkert svar.
Niðurstaða norska prófessorsins Tronds Bjørndal er hin sama, að gæði og verðmyndun makríls frá Íslandi séu ekki sambærileg við þann norska. Þá væri óverjandi að nota norskar hagtölur sem verðviðmið, jafnvel þó svo að afurðin væri sambærileg, þar sem norski uppboðsmarkaðurinn, þar sem Norges Sildesalgslag hefur einokunaraðstöðu í fyrstu sölu, gefur hærra verð en ella.
Lægra verð íslenskra landana
Það er ekki aðeins fræðilegt álit, því að þegar litið er til þess verðs, sem íslensk skip hafa fengið fyrir makríllandanir í Noregi, blasir við að íslenski aflinn er um helmingi verðminni en sá norski.
Þetta er einnig stutt af yfirlýsingu frá Norges Sildesalgslag, sem stýrir uppboðsmarkaði fyrir makríl (og aðrar uppsjávartegundir) í Noregi.
Þar voru teknar saman sölutölur íslenskra skipa á norskum uppboðsmarkaði árin 2021-2024, en af þeim er augljóst að makríll veiddur af íslenskum skipum er lakari að gæðum en sá sem norsk skip veiða á sama tíma. Fyrir vikið fá íslensk skip miklu lægra verð í Noregi en norsku skipin, en í sumum tilvikum gátu þau ekki einu sinni selt aflann, þar sem hann stóðst ekki gæðakröfur norskra kaupenda.