Ódessa Árás Rússa olli meðal annars skemmdum á blokkum í borginni.
Ódessa Árás Rússa olli meðal annars skemmdum á blokkum í borginni. — AFP/Oleksandr Gimanov
Einn fórst og að minnsta kosti 13 manns særðust í drónaárás Rússa á hafnarborgina Ódessu í gærmorgun. Rússar hafa á síðustu dögum sett aukinn þunga í loftárásir sínar á Úkraínu, og sakaði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þá í gær um að fremja vísvitandi hryðjuverk gegn óbreyttum borgurum

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Einn fórst og að minnsta kosti 13 manns særðust í drónaárás Rússa á hafnarborgina Ódessu í gærmorgun. Rússar hafa á síðustu dögum sett aukinn þunga í loftárásir sínar á Úkraínu, og sakaði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þá í gær um að fremja vísvitandi hryðjuverk gegn óbreyttum borgurum.

„Og það er nákvæmlega þess vegna sem þeir þurfa að fá sterkt svar, sem mun hafa áhrif á Rússland í heild og getu þess til að halda stríðinu áfram,“ sagði Selenskí og kallaði þar eftir hertum refsiaðgerðum á Rússa.

Héraðsstjórinn í Ódessu sagði að heimili, skólahús og borgaralegir innviðir hefðu skemmst í árásinni, en á meðal hinna særðu voru þrír björgunarmenn sem höfðu farið til þess að aðstoða fórnarlömb fyrri árásarbylgju Rússa. Flugher Úkraínu sagði í gær að Rússar hefðu sent 86 dróna til árása á landið, og að 70 þeirra hefðu verið skotnir niður af loftvörnum landsins.

Gætu hertekið Súmí

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að herir sínir hefðu náð að sækja fram í Donetsk-héraði í austri og í Súmí-héraði í norðausturhluta Úkraínu.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær á efnahagsráðstefnunni í St. Pétursborg að hann útilokaði ekki að Rússaher myndi hertaka Súmí-borg, sem er um 30 kílómetrum frá landamærunum að Rússlandi, jafnvel þótt það væri ekki yfirlýst markmið aðgerða hersins í héraðinu. Sagði Pútín að aðgerðirnar væru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að Úkraínumenn gætu skotið með stórskotaliði sínu á Kúrsk-hérað Rússlands.

Pútín sagði jafnframt að hann liti á Rússa og Úkraínumenn sem eina þjóð. „Í þeim skilningi tilheyrir öll Úkraína okkur,“ sagði Pútín. „Það er til máltæki: Þar sem rússneskur hermaður stígur niður fæti, það er okkar,“ sagði Pútín jafnframt.

Pútín vék einnig orðum sínum að þeim möguleika að rússneska hagkerfið gæti lent í kreppu, og sagði að rússneskir embættismenn mættu ekki undir nokkrum kringumstæðum leyfa slíku að gerast.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson