Taíland Allt leikur nú í lyndi milli ráðherrans og hershöfðingjans.
Taíland Allt leikur nú í lyndi milli ráðherrans og hershöfðingjans. — AFP
Paetongtarn Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, og Boonsin Padklang, hershöfðingi í taílenska hernum, hittust á sáttafundi í gær. Öll spjót hafa staðið á Paetongtarn eftir að símtali hennar við Hun Sen, forseta efri deildar kambódíska þingsins, var lekið

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Paetongtarn Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, og Boonsin Padklang, hershöfðingi í taílenska hernum, hittust á sáttafundi í gær. Öll spjót hafa staðið á Paetongtarn eftir að símtali hennar við Hun Sen, forseta efri deildar kambódíska þingsins, var lekið. Í símtalinu sagði Paetongtarn að hún liti á Boonsin sem andstæðing sinn.

Boonsin leiðir herdeildir við landamæri Taílands og Kambódíu, þar sem upp úr sauð í maímánuði.

Paetongtarn hefur verið í embætti skemur en ár og hefur nú verið kallað eftir afsögn hennar. Bhumjaithai-flokkurinn, sem myndar ríkisstjórn Pehu Thai-flokks Paetongtarn, hefur þegar sagt sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Greint var frá því í gær að annar samstarfsflokkur hennar í ríkisstjórn hótaði að slíta samstarfinu nema hún myndi segja af sér sem forsætisráðherra.

Gengi hlutabréfa í Taílandi hefur lækkað mikið í vikunni og hefur gengi þeirra ekki verið lægra síðastliðin fimm ár.

Paetongtarn heimsótti hermenn í norðausturhluta Taílands í gær og ræddi þar við Boonsin hershöfðingja. Eftir fundinn sagði hún að nú væri búið að útkljá málið.

„Hann fór mjög vel. Ég er búin að tala við hershöfðingjann og það er ekki lengur neitt vandamál á milli okkar,“ sagði Paetongtarn. Boonsin sagði við fjölmiðla að „allt væri venjulegt“.

Forsætisráðherrann fór í heimsóknina á vígstöðvarnar í kjölfar harðrar gagnrýni á blaðamannafundi á fimmtudag, þar sem hún var meðal annars sögð hafa veitt lítið viðnám í símtalinu við Hun, sem þykir sjóaður stjórnmálamaður.