Jens Garðar Helgason
Jens Garðar Helgason
Enn og aftur eru góðir orkukostir orðnir leiksoppar og skiptimynt á vettvangi stjórnmálanna.

Jens Garðar Helgason

Í ræðu og riti hefur ráðherrum, þingmönnum og talsmönnum ríkisstjórnarinnar orðið tíðrætt um að rjúfa „kyrrstöðuna“ í orkumálum. Vakti það von í brjósti, að flokkar, sem margir hverjir hafa áður barist gegn frekari orkuöflun á Íslandi, væru búnir að sjá ljósið í þessum efnum. En svo er hins vegar ekki. Flokkarnir eru samir við sig, þá ekki síst flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin.

Í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur þriðji áfangi rammaáætlunar verið til umræðu þar sem fimm virkjanakostir – upp á samtals 3.517 gígavattstundir (GWst) – voru uppi á borðinu. Þessir kostir eru Skrokkalda (345 GWst), Holtavirkjun (415 GWst), Urriðafossvirkjun (1.037 GWst), Kjalölduveita (630 GWst) og Héraðsvötn (1.090 GWst). Minnihlutinn lagði til að allir virkjanakostirnir færu í nýtingarflokk, en tillaga verkefnastjórnar rammaáætlunar var sú að Héraðsvötn og Kjalölduveita færu í vernd og hinir kostirnir þrír í nýtingu.

Meirihluti nefndarinnar gekk skrefinu lengra og lagði til að einungis tveir minnstu kostirnir færu í nýtingu, þ.e.a.s. Skrokkalda og Holtavirkjun. Samtals er um að ræða einungis fimmtung af þeirri orku sem var til umræðu, eða 760 GWst af 3.517 GWst. Að mati meirihlutans skulu Héraðsvötn einnig fara í verndarflokk, þrátt fyrir að færa megi sannfærandi rök fyrir því að sá kostur fari í nýtingu, eða í versta falli í biðflokk. Vega þar þungt rök um orkuöryggi og fjarlægð frá þekktum náttúruvársvæðum, svo fátt eitt sé nefnt.

Í dag eru á sjóndeildarhringnum fimm virkjanakostir og stækkanir hjá Landsvirkjun. Þeir eru; stækkun Þeistareykjavirkjunar (590 GWst), stækkun Sigöldu (10 GWst), Vaðölduver (440 GWst), Blöndulundur (350 GWst) og Hvammsvirkjun (720 GWst). Samtals eru þetta 2.110 GWst. Að viðbættum 760 GWst frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þá eru þannig alls 2.870 GWst í nýtingarflokki. Til samanburðar gerir spá Landsnets ráð fyrir því að orkuþörf til ársins 2035 muni aukast um 5.000 GWst.

Það sjá það allir sem vilja sjá að hér er ekki verið að mæta núverandi orkuskorti, aukinni orkuþörf til næstu ára, eða tryggja orkukosti og fyrirsjáanleika í orkuvinnslu til næstu áratuga. Enn og aftur eru góðir orkukostir orðnir leiksoppar og skiptimynt á vettvangi stjórnmálanna. Er það miður og ekki í takt við það sem hér hefur verið boðað og þeir sem líða fyrir það eru landsmenn í minni hagvexti, verðmætasköpun og fjárfestingu.

Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðausturkjördæmis.

Höf.: Jens Garðar Helgason