Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Framsóknarmenn í borgarstjórn hafa lagt fram tillögu um að fela fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar að gera tillögu að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur, þar sem álagningarhlutfall fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði lækki þannig að hækkun fasteignamats hafi ekki áhrif til hækkunar fyrir íbúa og fyrirtæki.
Miðað er við að tekjur borgarsjóðs af fasteignagjöldum hækki ekki á milli áranna 2025 og 2026.
Til þess eigi að lækka álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði úr 0,18% í 0,163% og álagningarhlutfall á atvinnuhúsnæði úr 1,6% í 1,536%. Lóðaleiga lækki úr 0,2% í 0,18%.
„Borgarbúar hafa þurft að sætta sig við hækkun fasteignagjalda undanfarin ár, enda hefur fasteignamat hækkað gríðarlega,“ segir Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í samtali við Morgunblaðið. Hann minnir á að fyrri meirihluti hafi undið ofan af hallarekstri fyrri ára og skilað 5 milljarða kr. afgangi á síðasta ári og fullt tilefni og tækifæri sé til að Reykvíkingar fái notið þess með skattalækkun.
„Ef þessi meirihluti eyðir ekki um efni fram, sem reyndar er full ástæða til að óttast, þá á að vera svigrúm til þess að innheimta lægri gjöld á næsta ári. Flokkarnir í meirihlutanum berjast reyndar ekki fyrir skattalækkunum, heldur einbeita sér frekar að útgjöldum. Það verður því fróðlegt að sjá hvað þau gera með þessa tillögu,“ segir Einar.
Fasteignamat & gjöld
Nýtt fasteignamat fyrir árið 2026 var birt í maí
Matið hækkaði að meðaltali um 9,2% frá fyrra ári
Fasteignamat er nú hærra en brunabótamat
Mesta hækkunin er á Suðurnesjum og Norðurlandi
Að óbreyttu hækka fasteignagjöld til samræmis
Mörg sveitarfélög áforma lækkun álagningar fasteignagjalda á móti matshækkuninni