Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Allnokkur sveitarfélög, fyrst og fremst við sjávarsíðuna, hafa óskað eftir því að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra komi og haldi opinn fund í byggðarlaginu til þess að ræða það sem helst brennur á heimamönnum.
Svo virðist sem vel heppnaður opinn fundur hennar á Ísafirði í fyrradag hafi kveikt í mönnum, en hann stóð í einn og hálfan tíma og var víða komið við. Fyrr um daginn hafði ráðherra átt samskonar fund á Tálknafirði.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tóku þrjú sveitarfélög á norðausturhorninu sig saman um að fá Kristrúnu þangað, Norðurþing, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur. Þá hefur Höfn í Hornafirði sent ráðherranum ósk um fund þar eystra.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, staðfesti í samtali við blaðið að hún hefði fyrir nokkru boðið Kristrúnu að koma til fundar úti í Eyjum, til þess að ræða þau mál sem mönnum væru efst í huga. Hún sagði forsætisráðherra hafa tekið vel í hugmyndina, en að ekki væri búið að festa neinn tíma.
Þá hefur blaðið tryggar heimildir fyrir því að fleiri stór sveitarfélög, þar sem sjávarútvegur er fyrirferðarmikill í atvinnulífi, séu að bræða með sér sams konar óskir til forsætisráðherra.
Ugglaust er það veiðigjaldafrumvarpið sem menn fýsir mest að ræða á flestum stöðum, þó sjálfsagt séu ýmis staðbundnari mál ofarlega á baugi.
Í sjávarplássunum er víða, eins og við er að búast, mikil óánægja með frumvarpið. Sá kurr hefur aukist síðustu daga, eftir því sem einstök fyrirtæki hafa reiknað út hækkun sína og niðurstaðan einatt víðs fjarri áætlunum atvinnuvegaráðuneytis.
Kristrún hefur verið dugleg að fara út á land á slíka fundi, var í Borgarnesi í febrúar, Eyrarbakka og Mosfellsbæ í mars, Varmahlíð í apríl, Vopnafirði og Neskaupstað í maí og er með opinn fund í Breiðholti í kvöld.