Sigmar Guðmundsson
Sigmar Guðmundsson
Við sem notum samfélagsmiðla og tölvupósta erum orðin leiðinlega vön svokölluðum spam-póstum. Hugtakið „spam“ er fengið úr ensku og hefur því miður ekki fengið betri þýðingu en „rusl-póstur“

Við sem notum samfélagsmiðla og tölvupósta erum orðin leiðinlega vön svokölluðum spam-póstum. Hugtakið „spam“ er fengið úr ensku og hefur því miður ekki fengið betri þýðingu en „rusl-póstur“. Spam getur bæði þýtt fjölpóstur sem sendur er mörgum, en einnig að senda endurtekið sömu skilaboðin í pósti eða innlegg í spjallhóp, svo eitthvað sé nefnt.

Spjallhópar á samfélagsmiðlum, rétt eins og önnur félagsleg samskipti, eru algerlega háðir því að fólk innan þeirra umgangist þá af ábyrgð. Undirstaða tilveru þeirra er að meðlimir sýni hver öðrum traust og standi sjálfir undir því. Það þarf ekki nema einn eða tvo meðlimi sem spamma hópinn með sömu skilaboðunum endurtekið, til þess að fólk hætti að stunda hópinn og hann bætist í hóp þeirra milljóna hópa sem svífa dauðir einhvers staðar í gagnaverum.

Nú um stundir stendur yfir önnur umræða um leiðréttingu veiðigjalda. Það kann að valda mörgum undrun, enda eru efnisleg atriði málsins öll komin fram og öllum kunn. Leitað hefur verið eftir samráði við alla helstu hagaðila, bæði í samráðsgátt og við þinglega meðferð. Gögn málsins eru ítarleg, hafa verið rýnd og tekið hefur verið tillit til þeirra þar sem það á við.

Samt er málið rætt, og rætt aftur. Sömu hlutirnir sagðir aftur og aftur. Alveg eins og gert var við fyrstu umræðu málsins. Alveg eins og gert var í umræðu um bókun 35, alveg eins og var gert þegar staðfestur var fríverslunarsamningur við Taíland og aftur og aftur og aftur.

Það er tilviljun að þessi orð eru skrifuð í kjölfar þjóðhátíðardagsins. Veiðigjöldin og öll hin málin sem nefnd hafa verið snúast nefnilega ekki um hvert mál fyrir sig. Í reynd snúast þau um það hvort vilji meirihluti landsmanna nái fram að ganga og gengið sé til atkvæðagreiðslu um mál sem meirihluti er fyrir á Alþingi.

Að vera fullvalda og sjálfstætt ríki snýst ekki bara um að vera laus undan erlendum yfirráðum. Það snýst líka um það hvort stofnanir samfélagsins virki og að kjörnir fulltrúar geti starfað samkvæmt því umboði sem fólkið í landinu veitir þeim, í stað þess að starfa samkvæmt umboði sérstakra afla eða hagsmuna sumra.

Sífellt endurtekin skilaboð, alveg óháð umfjöllunarefninu, rýra hvern samskiptavettvang, hvort sem það er löggjafarþing eða spjallhópur. Sé traustið ekki umgengist af ábyrgð, hverfur áhugi fólks á því. Munurinn er sá að það er hægt að stofna nýjan spjallhóp, það er erfiðara með Alþingi.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. sigmar.gudmundsson@althingi.is

Höf.: Sigmar Guðmundsson