Umsóknir Meirihluti umsækjenda í háskóla í ár eru konur, líka í HR.
Umsóknir Meirihluti umsækjenda í háskóla í ár eru konur, líka í HR. — Morgunblaðið/Árni Snæberg
Umsóknarfrestur í háskólanám fyrir haustið 2025 er nú liðinn og birtar tölur sýna metfjölda umsókna víða um land. Konur eru í miklum meirihluta meðal umsækjenda og sumar námsleiðir fá fleiri umsóknir en nokkru sinni fyrr

Brynhildur Glúmsdóttir

brynhildur@mbl.is

Umsóknarfrestur í háskólanám fyrir haustið 2025 er nú liðinn og birtar tölur sýna metfjölda umsókna víða um land. Konur eru í miklum meirihluta meðal umsækjenda og sumar námsleiðir fá fleiri umsóknir en nokkru sinni fyrr. Háskóla Íslands bárust um 5.100 umsóknir í grunnnám og 4.000 í framhaldsnám. Í grunnnámi eru 61,8% umsækjenda konur, 38% karlar og 0,2% kynsegin. Í framhaldsnámi eru 67% konur, 32% karlar og 0,3% kynsegin.

Umsóknum um grunnnám fjölgaði lítillega frá í fyrra, en þá hafði orðið 10% aukning frá árinu á undan. Umsóknir í framhaldsnám eru örlítið færri en í fyrra, en á pari við árið 2023.

Félagsvísindasviði barst 961 umsókn og voru flestar umsóknirnar um nám í viðskiptafræði, eða um 330. Umsóknum í lagadeild fjölgaði um rúmlega fjórðung milli ára og um þriðjung í hagfræði.

Á heilbrigðisvísindasviði bárust um 1.200 umsóknir, þar af voru um 270 sem skráðu sig í inntökuprófið í læknisfræði, sem fór fram 5. og 6. júní. Sjötíu og fimm nemendur munu komast að í námið, líkt og í fyrra. Listaháskóli Íslands fékk alls 1.031 umsókn í ár, sem er metár í sögu skólans. Af þeim eru 633 konur, 387 karlar og 11 kynsegin einstaklingar.

Mest var sótt um í hönnunardeild skólans og næstmest í sviðslistadeild. Þá fjölgaði umsóknum í arkitektúrdeild um 29% frá fyrra ári. Háskólinn á Akureyri fékk 2.336 umsóknir, sem er einnig metár og jafngildir 15% fjölgun milli ára.

Af umsækjendum eru 75% konur.
Flestir sóttu um í kennaradeild skólans, samtals 483 einstaklingar, sem er 25% aukning frá því í fyrra. Mikill áhugi var einnig á sjávarútvegsfræði, þar sem umsóknum fjölgaði um 55%, þrátt fyrir umræðu um veiðigjöld.

Athyglisvert er að skólinn fékk óvenjumargar umsóknir strax eftir opnun í mars, en í maí dró aðeins úr aðsókn á meðan landsmenn nutu hlýrra veðurs. Eins og oft áður jókst fjöldi umsókna aftur mjög undir lok umsóknarfrests, mjög íslenskt. Háskólinn í Reykjavík (HR) fékk tæplega 4.400 umsóknir, sem er svipað og í fyrra. Færri munu því komast að en vilja í nám í HR, líkt og fyrri ár. Um 1.500 nýnemar verða teknir inn í haust.

Í fyrsta sinn í nokkur ár voru konur í meirihluta umsækjenda, eða rúmlega 51%. Flestar umsóknir bárust til viðskipta- og hagfræðideildar, en næstflestar til verkfræðideildar. Þá fjölgaði umsóknum í lagadeild skólans um 15% milli ára.

Höf.: Brynhildur Glúmsdóttir