Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Írans, fundaði í gær með utanríkisráðherrum Bretlands, Frakklands og Þýskalands og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins í Genf. Var markmið viðræðnanna að sjá hvort mögulegt væri að binda enda á átök Ísraels og Írans áður en þau stigmagnast með því að gera aftur samkomulag um kjarnorkuáætlun Írana.
Utanríkisráðherrar Frakklands, Þýskalands og Bretlands vildu ekki segja eftir fundinn hvort einhver árangur hefði náðst í viðræðunum, en Jean-Noel Barrot, franski utanríkisráðherrann, sagði að Araghchi hefði lýst þar yfir vilja sínum til að halda viðræðunum áfram.
Þýski utanríkisráðherrann Johann Wadephul og David Lammy frá Bretlandi sögðu báðir mikilvægt að Bandaríkin kæmu einnig að viðræðunum, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði að hann vildi gefa þeim tvær vikur, en Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í fyrrakvöld að hann myndi taka sér tvær vikur til þess að ákveða hvort Bandaríkjaher ætti að blanda sér í átökin við hlið Ísraela.
Ákveði Bandaríkin að taka þátt í loftrárásum gegn Íran er einkum talið að sú þátttaka muni snúa að því að sprengja upp úranauðgunarstöð Írana í Fordó, en hún er grafin djúpt í jörðu. Hefur verið umræða um það innan Bandaríkjanna hvort þeirra helsti byrgjabani hafi getuna til þess að eyða stöðinni.
Macron sagði jafnframt í gær að Evrópuríkin ætluðu að leggja fram sáttatilboð til Írana sem tæki til margvíslegra þátta. Þar á meðal yrði kveðið á um að Írönum yrði alfarið meinað að auðga úran og að þeim yrðu settar þröngar skorður í þróun eldflauga. Þá yrðu stjórnvöld í Íran að hætta að fjármagna hryðjuverkahópa.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ræddi átökin í gær og skoraði framkvæmdastjóri SÞ, Antonio Guterres, á alla aðila að „gefa friðnum tækifæri“. Guterres varaði við því að ástandið gæti farið fljótlega úr böndunum ef ekki væri gripið í taumana. „Stigmögnun þessara átaka gæti kveikt eld sem enginn getur hamið. Við megum ekki leyfa því að gerast,“ sagði Guterres.
Rafael Grossi, framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, ávarpaði einnig fund öryggisráðsins og varaði þar við því að loftárás á Bushehr-kjarnorkuverið gæti leitt til stórslyss, þar sem þar væri að finna mörg tonn af geislavirku efni.
Grossi sagði einnig að IAEA gæti gulltryggt það, fengi hún að starfa óáreitt að eftirliti, að Íran gæti aldrei framleitt kjarnorkuvopn og hvatti hann til þess að lausn yrði fundin á deilunni við samningaborðið.
Eyal Zamir, yfirmaður ísraelska hersins, varaði við því gær að gera mætti ráð fyrir langri herferð gegn Íran. Sagði Zamir í gær að um væri að ræða flóknustu hernaðaraðgerð í sögu Ísraelsríkis, enda væri tilgangurinn sá að útrýma einni mestu ógn við öryggi Ísraels sem komið hefði upp.
Sagði Zamir að Ísraelsher hefði undirbúið sig í áraraðir fyrir stríð við Íran, og að aðgerðirnar nú hefðu verið mögulegar vegna þess að réttar aðstæður sköpuðust tímabundið. „Sagan hefði ekki fyrirgefið okkur hefðum við ekki gripið núna til okkar ráða,“ sagði Zamir.