Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir furðu sinni á tregðu stjórnvalda við að veita aðgang að lykilgögnum sem varpa ljósi á raunveruleg áhrif frumvarps til laga um breytingu á veiðigjöldum

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir furðu sinni á tregðu stjórnvalda við að veita aðgang að lykilgögnum sem varpa ljósi á raunveruleg áhrif frumvarps til laga um breytingu á veiðigjöldum.

Kemur þetta fram í bókun stjórnarinnar frá fundi hennar í gær, sem birt er í dag á heimasíðu samtakanna, og greinir jafnframt frá því í bókuninni að beiðni samtakanna um upplýsingar frá Skattinum liggi fyrir í atvinnuvegaráðuneytinu. Segir svo í bókuninni:

„Það er allra hagur að gögn og greiningar til að undirbyggja mat á áhrifum frumvarpsins á afkomu fyrirtækja og sveitarfélög landsins séu aðgengileg og að vandað sé til allra verka. Það er því bagalegt að samtökin hafi þurft að leita til milliliða til að nálgast gögn svo hægt sé að uppfæra greiningar á áhrifamati.“

Fyrir liggi að grunnútreikningar Skattsins á hækkun veiðileyfagjalds leiði í ljós að fyrri útreikningar ráðuneytisins á hækkun gjaldsins hafi verið vanáætlaðir og skeiki þar miklu. Segir í bókun stjórnarinnar að nær öll hækkunin leggist á landsbyggðirnar og með enn meiri þunga en fyrri áætlanir hafi gert ráð fyrir. Sé ekki einvörðungu um að ræða hækkun á stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins heldur sé ljóst að téð hækkun nái til hundraða annarra fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi, lítilla fjölskyldufyrirtækja og einyrkja. Þá segir í bókun stjórnar:

„Verulegar líkur eru á að hækkun veiðigjalds leiði til aukinnar samþjöppunar fyrirtækja í sjávarútvegi og að starfsemi fiskvinnsla leggist af í ákveðnum byggðarlögum. Nauðsynlegt er því að gögn Skattsins verði gerð aðgengileg þannig að þingmenn og hagaðilar eins og sveitarfélög landsins, sem mörg hver byggja afkomu sína að verulegu leyti á íslenskum sjávarútvegi, geti metið bein og óbein áhrif frumvarpsins, s.s. á útsvarstekjur, tekjur vegna umsvifa í starfsemi hafna, stoðgreinar og nýsköpun.“

Segir stjórnin það blasa við að nauðsynlegt sé að taka frumvarpið aftur til meðferðar og bæta úr þeim annmörkum sem fram hafi komið. Samtökin lýsi enn yfir vilja sínum til að hækkun veiðileyfagjalda verði innleidd í þrepum.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson