Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Tommamótið í Vestmannaeyjum, síðar Shellmótið og nú Orkumótið, var upphaflega fótboltamót fyrir níu og tíu ára stráka í 6. flokki, en er nú fyrir eldri árgang flokksins. Það var fyrst haldið sumarið 1984, Freyr Sverrisson mætti þangað með sinn flokk úr Keflavík sumarið 1985 og fer í næstu viku á sitt 32. mót 40 árum síðar. „Þetta er alltaf jafn gaman,“ segir hann, en Freyr byrjaði ungur að þjálfa samfara því að spila 1981 og hefur verið í fullu starfi sem þjálfari yngri flokka, lengst af í Keflavík, síðan 1995.
Alltaf í boltanum
Knattspyrna hefur verið ríkur þáttur í lífi Freys. Hann spilaði tæplega 100 leiki með meistaraflokki ÍBK og vann hjá Knattspyrnusambandi Íslands, m.a. sem aðstoðarþjálfari U17 og U19 ára landsliða pilta. „Tíminn hjá KSÍ var virkilega skemmtilegur og ég hef alltaf jafn gaman af þjálfarastarfinu,“ segir hann og áréttar að hann hafi verið þjálfari yngri flokka í 46 ár. „Sigurður Steindórsson var helsta fyrirmyndin,“ rifjar hann upp. Sigurður hafi verið þjálfari yngri flokka, farið einn með leikmenn í æfingaferðir um landið og haldið vel utan um hópinn hverju sinni. „Þegar ég var 16 ára sagði hann við mig að ég væri týpan til þess að verða þjálfari og ég tók hann á orðinu, byrjaði að þjálfa með honum og festist síðan alfarið í starfinu. Það eru algjör forréttindi. Mér finnst ég ekki vera í vinnu því þetta er svo gaman.“
Freyr segir að mótið hafi alla tíð verið skemmtilegt, skipulagið gott sem og öll umgjörð, en margt hafi breyst frá fyrstu kynnum sínum af því. Mesta breytingin á mótinu sé að áður hafi aðeins þjálfarar verið með liðunum öllum stundum, en nú hafi forráðamenn strákanna tekið við gæslunni utan æfinga og leikja og þjálfarar sofi á hóteli. „Áður voru strákar áhyggjulausir í fótbolta allan daginn en nú þurfa þeir stöðugt að vera að hringja heim og láta vita af sér. Öryggistilfinningin er önnur og foreldrar hafa meiri áhyggjur af börnum sínum.“ Áður hafi þátttakendur borðað á hinum ýmsu veitingastöðum í Eyjum. „Þá gekk hvert lið í röð á eftir þjálfara sínum með aga og hlýðni að leiðarljósi.“
Hann segist alla tíð hafa lagt áherslu á uppbyggingu einstaklingsins og mannrækt frekar en sigra og titla. „Ég er af gamla skólanum, virði náungann og tala fallega um aðra. Það er mér meira virði að koma ungum leikmanni til manns en að gera hann að betri fótboltamanni. Það að kenna ungmennum á lífið hefur fjarað út í þjálfuninni og jafnvel er gert grín að gamla skólanum. Hann er samt nauðsynlegur fyrir börn. Ég er með einfalda reglu. Ef þú þarft að tala við mig gerum við það ekki í gegnum tölvu. Við þurfum að hittast eða tala saman í síma.“
Freyr hefur lagt sitt af mörkum á kvöldvökum utan vallar í hlutverki Tobba trúðs. „Ég hef sýnt töfrabrögð og verið með fíflagang,“ rifjar hann upp. Maradona hafi verið í sviðsljósinu 1985 og Sverrir Auðunsson, nú framkvæmdastjóri hjá Golfklúbbi Suðurnesja, hafi vakið mikla athygli. „Hann var besti maðurinn minn og þegar ég gekk með hann á háhesti um húsið á kvöldvökunni kölluðu allir Maradona, Maradona. Það var skemmtileg stund.“ Þrátt fyrir að sigrarnir séu ekki keppikefli hafi einn af hápunktunum verið þegar Andri Fannar, sonur hans, hafi fyrir hönd liðs Keflavíkur tekið við sigurlaununum 2002 og verið valinn besti leikmaðurinn. „Þá var þjálfarinn sérstaklega stoltur af syni sínum.“