Verð á almennum neysluvörum á Íslandi var 62% hærra á síðasta ári en að jafnaði í ríkjum Evrópu samkvæmt nýrri úttekt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Verðlag á mat og drykk var 44% hærra á Íslandi en í Evrópusambandinu

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Verð á almennum neysluvörum á Íslandi var 62% hærra á síðasta ári en að jafnaði í ríkjum Evrópu samkvæmt nýrri úttekt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Verðlag á mat og drykk var 44% hærra á Íslandi en í Evrópusambandinu.

Aðeins í Sviss voru neysluvörur dýrari en verðlag þar var 74,4% hærra en að meðaltali í Evrópu. Alls náði samanburður Eurostat til 36 landa, þ.e. 27 ESB-ríkja, þriggja EFTA-ríkja og sex umsóknarríkja um ESB, en meðaltal var reiknað út frá aðildarríkjum Evópusambandsins. Verðlag í 13 þessara landa var á síðasta ári hærra en meðaltalið.

Ef eingöngu er horft til landa innan Evrópusambandsins voru neysluvörur og þjónusta dýrust í Danmörku eða 43% hærri en meðaltalið. Verðlag í hinum ríkjum Norðurlandanna var einnig vel yfir meðaltali á síðasta ári. Í Noregi var verðlag að jafnaði 24% hærra en meðaltalið, í Finnlandi 23,5% hærra og í Svíþjóð var það 15% hærra.

Verðlag í álfunni er misjafnt eftir löndum enda laun, skattheimta og launakostnaður ólík. Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær var landsframleiðsla á mann á Íslandi 32% meiri en í ESB árið 2024. Einstaklingsbundin neysla á mann á Íslandi var 16% meiri en í ESB árið 2024.

Fram kemur í tilkynningu Eurostat að mestur sé verðmunurinn á áfengi og tóbaki milli landa innan Evrópusambandsins. Þannig var verð á áfengi 105% hærra á Írlandi en að meðaltali í ESB. Áfengisverð á Íslandi var hins vegar það hæsta í álfunni, eða 119,1% hærra en meðaltalið. Næstur í röðinni var Noregur þar sem áfengisverð var 105,3% yfir meðaltali. Lægsta áfengisverðið er hins vegar í Tyrklandi, Búlgaríu, Rúmeníu og í löndunum á Balkanskaga.

Næst mesti verðmunurinn var á veitingum og gistingu. Í löndum ESB var verðið hæst í Danmörku, eða 48% hærra en meðaltalið sagði til um en lægst í Búlgaríu, 47% undir meðaltalinu. Dýrustu gistinguna og máltíðir á veitingahúsum er hins vegar að finna í Sviss þar sem þessir liðir eru nærri 71% yfir meðaltali; og á Íslandi, 67,3% yfir meðaltali.

Orkuverð hér á landi er hins vegar frekar lágt samkvæmt úttekt Eurostat eða um 36% undir meðaltali Evrópusambandsins. Hæst var verðið í Sviss, 26,8% yfir meðaltalinu, en lægst í Ungverjalandi, um 62% undir meðaltali.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson