Davíð Stefánsson
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins funda við Churchillplein í Haag í Hollandi dagana 24.-25. júní 2025. Torgið er kennt við Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem varaði við vaxandi ógn nasista Þýskalands og annarra alræðisafla.
Churchill talaði fyrir daufum eyrum árið 1936 í umræðum neðri deildar breska þingsins þegar hann varaði við þeirri öryggisógn sem steðjaði að landinu: „Höfum við tíma til að koma vörnum í lag? … Munum við hafa tíma til að gera nauðsynlegar ráðstafanir, verða hin skelfilegu orð „of seint“ skráð?“
Staðsetning leiðtogafundarins felur í sér viðeigandi sögulega speglun og sendir heiminum skilaboð um sameiginlega áherslu bandalagsins á tafarlausan undirbúning fyrir framtíðarátök, sérstaklega í kjölfar hernaðarþenslu og landvinningastríðs Rússlands og nútímavæðingar stóreflds herafla Kínverja.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, vitnaði til orða Churchills í ræðu í bresku hugveitunni Chatham House í London, 9. júní, þegar hann ræddi núverandi öryggisáskoranir bandalagsins. Hann, líkt og þjóðarleiðtogar Norðurlanda, varar við sinnuleysi í varnar- og öryggismálum: „Sagan kennir að til að varðveita frið verðum við að undirbúa okkur fyrir stríð,“ sagði Rutte. „Óskhyggja ver okkur ekki. Hættan svífur ekki á braut í draumi. Von er ekki stefna.“
Eitt meginefni leiðtogafundarins er aukinn kostnaður og framlög aðildarríkja til varnarmála. Ný markmið Atlantshafsbandalagsins gera ráð fyrir heildarútgjöldum upp á 5% landsframleiðslu – 3,5% til beinna hernaðarútgjalda auk 1,5% til annarra öryggisáskorana, eins og innviða. Líklegt verður að telja að flest ríkin samþykki stefnuna. Um er að ræða mikla fjármuni fyrir lýðræðis- og velferðarríki sem krafin eru um önnur kostnaðarsöm verkefni. En öryggi íbúa er grundvallarskylda hvers ríkis og ástand heimsmála kallar á þessa fórn í þágu friðar.
Breytt heimsmynd, aukinn styrkur einræðis- og alræðisafla, fjölgun íbúa, loftslagsbreytingar og stafræn ógn milli ríkja kallar á lausnir í öryggis- og varnarmálum og aukna fjármuni.
Hvað þetta þýðir fyrir Ísland?
Bandamenn innan NATO hafa staðfest að herlaust Ísland falli ekki undir ný markmið um að 3,5% verði varið til beinna útgjalda til varnarmála, en hins vegar sé gert ráð fyrir meiri þátttöku með vinaþjóðum í eigin vörnum og bandalagsins.
Fámennasta þjóð bandalagsins – og sú eina án eigin herafla – er ekki án varna. Aðild Íslands að bandalaginu byggist á styrk vinaþjóða til að tryggja varnir, nokkuð sem við erum ófær um að sinna óstudd. En aðildin krefst einnig framlags til sameiginlegra, órjúfanlegra varna frjálsra samfélaga. Þær varnir verður að efla og tryggja fælingarmátt sem veitir styrk og öryggi. Ísland yrði virkur og verðugur bandamaður í bandalaginu. Það krefst fjárhagslegra fórna.
Auknum vörnum Íslands ber að fagna
Því ber að fagna áræðni íslenskra stjórnvalda, að stefna að því að varnartengd útgjöld Íslands nái um 1,5% af landsframleiðslu á næstu árum. Miklu skiptir að skilja að það að treysta eigin varnir felur í sér innviðafjárfestingar sem hafa í senn borgaralegt og hernaðarlegt notagildi: hafnarmannvirki, vegi, flugvelli, netöryggismál, aukinn viðbúnað við fjölþáttaógnum og verulega styrkingu Landhelgisgæslunnar.
Leiðtogafundurinn í Haag skyldi leggja áherslu á aukna samvinnu samfélaga og herafla Atlantshafsbandalagsins. Bandalagið þarf líka borgaralegan viðbúnað „til að tryggja að samfélög séu tilbúin fyrir daginn sem við vonum að renni aldrei upp,“ svo vitnað sé til orða Rutte. Um það snýst vernd milljarðs íbúa bandalagsins.
Varnaðarorð Churchills um að koma vörnum í betra horf verða að heyrast í Haag. Styrkar varnir tryggja frið.
Höfundur er formaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál.