Kjartan Leifur Sigurðsson
kjartanleifur@mbl.is
Áform ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur þess efnis að jafna orkukostnað milli dreifbýlis og þéttbýlis og leggja þar með hugsanleg auðlindagjöld á íbúa höfuðborgarsvæðisins hafa ekki verið rædd við fulltrúa sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þetta segja bæjarstjórar Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs.
Fjallað var um ummæli Kristrúnar í Morgunblaðinu í gær þar sem hún segir það vera í stefnu ríkisstjórnarinnar að jafna orkukostnað með heildstæðri auðlindastefnu. Valdimar Víðisson, Almar Guðmundsson og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjórar segjast öll hafa lesið um þessi áform í fyrsta sinn í blaðinu.
„Þetta hljómar eins og einhver popúlismi til að kaupa sér vinsældir hjá landsbyggðinni. Auðlindagjaldið á greinilega að vera enn ein skattheimtan undir yfirskini leiðréttingar eða jöfnunargjalds,“ segir Ásdís sem bendir jafnframt á að fasteignaverð og -gjöld séu almennt hærri á höfuðborgarsvæðinu en gengur og gerist á landsbyggðinni.
Áhyggjur af auknum álögum
Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku segir hugmyndirnar sem birtast í ummælum Kristrúnar vera óljósar og að Samorka muni nú óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum um hvað verið sé að tala um.
„Maður hefur áhyggjur af áformum um auknar álögur á orku- og veitustarfsemi. Slíkar álögur eru til þess fallnar að draga úr samkeppnishæfni Íslands og gera það verkefni að framkvæma orkuskipti flóknara og þyngra. Það er mikilvægt ef farið er í svona breytingar að það liggi fyrir hvaða áhrif þetta komi til með að hafa,“ segir Finnur og bætir við að Ísland búi við eitt flóknasta regluverk í Evrópu varðandi orkuöflun.