Ný tækni sem nýtir gervigreind til að spá fyrir um útbreiðslu nytjastofna á borð við þorsk, karfa og ýsu gæti sparað útgerðinni milljarða, að mati Svans Guðmundssonar, sjávarútvegsfræðings og framkvæmdastjóra Bláa hagkerfisins.
Um er að ræða tauganetslíkan sem nýtir í útreikninga sína meira en 1,2 milljónir klukkustunda af veiðigögnum frá árinu 2008 sem safnað hefur verið frá íslenskum útgerðum. Svanur segist hafa fengið gríðarlegt magn gagna frá öllum stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins, þar á meðal gögn á borð við botnhita, dýpi og afla á sóknareiningu. Þau hafa aldrei áður verið notuð til álíka spágerðar, að sögn Svans. Gögnin eru ekki rekjanleg á skip enda bundin trúnaði. Með því að keyra gögnin saman er hægt að spá fyrir um hreyfingar fiskistofna langt fram í tímann. Spálíkanið nýtir allar tiltækar upplýsingar um veiðar, staðsetningu, veðurskilyrði, sjávarhita og dýpi. » 14