Íslandsvinur George Motz steikir hér sinn frægasta hamborgara.
Íslandsvinur George Motz steikir hér sinn frægasta hamborgara. — Ljósmynd/Andrew Bisdale
Hamborgarasérfræðingurinn George Motz hefur boðað komu sína til landsins í næsta mánuði og mun vera með pop up-viðburð á veitingastaðnum Le Kock í miðborg Reykjavíkur. Þar mun hann steikja sinn frægasta borgara ofan í gesti, miðla af þekkingu sinni og spjalla við fólk

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Hamborgarasérfræðingurinn George Motz hefur boðað komu sína til landsins í næsta mánuði og mun vera með pop up-viðburð á veitingastaðnum Le Kock í miðborg Reykjavíkur. Þar mun hann steikja sinn frægasta borgara ofan í gesti, miðla af þekkingu sinni og spjalla við fólk.

George Motz kom hingað til lands síðasta haust og var með sams konar viðburð á Le Kock. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til; langar raðir mynduðust og góður rómur var gerður að viðburðinum. „Við seldum yfir 400 hamborgara á fjórum tímum,“ segir Markús Ingi Guðnason, einn eigenda Le Kock og Deigs.

Sjálfur segir George Motz í samtali við Morgunblaðið að hann sé afar spenntur fyrir að koma aftur hingað til lands. „Le Kock var frábær staður fyrir síðustu heimsókn okkar og það var auðveld ákvörðun að koma aftur. Þessir strákar vita í alvörunni hvað frábærir borgarar eru. Og að þessu sinni ætlar Deig-bakaríið þeirra að baka sérstök brauð fyrir okkur!“

George Motz er velþekktur fyrir skrif sín og umfjöllun um hamborgaramenningu vestanhafs og hefur stundum verið nefndur „konungur hamborgaranna“. Árið 2004 leikstýrði hann heimildarmyndinni Hamburger America þar sem fjallað var um átta frægustu hamborgarastaðina í Bandaríkjunum. Motz fylgdi myndinni eftir með samnefndri bók. Síðar sendi hann frá sér bókina Great American Burger Book: How to Make Authentic Regional Hamburgers at Home.

Árið 2023 síðasta ári lét hann langþráðan draum rætast og opnaði veitingastaðinn Hamburger America í Soho-hverfinu í heimaborg sinni, New York.

Matseðillinn verður ekki flókinn á Le Kock á pop up-viðburðinum. Hann mun aðeins elda sinn frægasta borgara, hinn svokallaða Oklahoma fried onion cheeseburger. Viðburðurinn stendur frá klukkan 15-20 þriðjudaginn 8. júlí og er öllum opinn.

Á heimasíðu Le Kock er hægt að kaupa sérstaka VIP-pakka sem fela í sér frátekið borð, hamborgara og meðlæti auk ýmissa muna á borð við sérstakan bol.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon