Ráðhús Greiðslur Reykjanesbæjar til verktaka dragast á langinn.
Ráðhús Greiðslur Reykjanesbæjar til verktaka dragast á langinn. — Morgunblaðið/Ómar
Sveitarfélagið Reykjanesbær virðist glíma við fjárhagsvanda en fjöldi verktaka sem Morgunblaðið ræddi við lýsir því að greiðslur frá sveitarfélaginu berist oft mörgum vikum og jafnvel mánuðum eftir umsaminn tíma

Sveitarfélagið Reykjanesbær virðist glíma við fjárhagsvanda en fjöldi verktaka sem Morgunblaðið ræddi við lýsir því að greiðslur frá sveitarfélaginu berist oft mörgum vikum og jafnvel mánuðum eftir umsaminn tíma.

Einn verktakanna segir að þessa stundina eigi hann kröfu upp á tugi milljóna króna á hendur Reykjanesbæ en krafan hafi ekki verið greidd og engin svör berist frá sveitarfélaginu um hvenær greiðsla sé væntanleg. Verktakarnir lýsa því að dráttarvextir safnist upp á skuldir bæjarins en að Reykjanesbær hafi til þessa neitað að greiða dráttarvexti af skuldum sínum. „Ég hef ekki fengið greiddar kröfurnar í heimabankanum heldur fæ ég millifærslur frá sveitarfélaginu fyrir upphaflegu skuldinni. Krafan sem safnar dráttarvöxtum stendur því enn ógreidd í heimabankanum, það er í raun bara lögbrot að greiða ekki lögmæta dráttarvexti,“ segir einn verktakanna.

Einnig lýsa verktakarnir því að ekki sé hægt að hafa samskipti við sveitarfélagið um greiðslufyrirkomulag skuldanna.

„Ég hef fullan skilning á því
að þegar hart er í ári berist greiðslur seint. Ég vil bara að sveitarfélagið taki samtalið við viðkomandi og útskýri stöðuna. Það er eins og það sé verið að reyna að fela það að vandamál
sé til staðar en það sjá allir vandamálið. Af hverju koma þeir ekki bara hreint til dyranna og segja að greiðslur berist síðar og reyna að semja um greiðslufrest?“ segir einn verktakanna sem íhugar brottflutning úr sveitarfélaginu vegna stjórnarhátta bæjaryfirvalda. kjartanleifur@mbl.is