Malín Eyfjörð Ægisdóttir
malin@mbl.is
Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis segir stöðu þingsins vera óbreytta frá því undir lok síðustu viku en það er áfram með öllu óljóst hvenær þingmenn fá að fara í sumarfrí.
„Það er verið að ræða veiðigjöld í annarri umræðu og hún virðist ætla að verða löng,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið. Hún segir tugi mála bíða eftir að komast í umræður.
Stjórnarandstaðan telur meirihlutann ætla sér um of, en stjórnarflokkarnir segja unnt að ljúka þingi fljótt náist samkomulag.
Hægt að klára fljótt
„Ef allir vinna af heilindum að því að virða þingræðið og setja mál til atkvæðagreiðslu þá eru góðar líkur á því,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ljúka þingstörfum fyrir júlí. Hann segir þó að meint málþóf geti tafið störfin.
„Þá er erfitt að segja hvenær þingið klárast en ég bind ennþá vonir við að það náist góðir samningar og fólk nái saman um að ljúka þingi á skikkanlegum tíma,“ segir hann.
Sigmar Guðmundsson, formaður þingflokks Viðreisnar, segir að þingflokksformenn séu að kasta á milli sín hugmyndum um lausnir á því hvenær hægt verði að ljúka þinginu.
„Það er ekki komin lending í það enn. Auðvitað er það þannig að ef það næst samkomulag þá er hægt að klára á ekkert mjög mörgum dögum.“ Hann segir sátt vera um mörg mál en að veiðigjöldin séu „augljóslega erfiðust“.
Þingflokksformenn stjórnarflokka segja engin mál hafa verið tekin af borðinu að svo stöddu.
„En það hefur verið rætt milli þingflokksformanna,“ segir Guðmundur Ari. „Það er alveg ljóst að mál eins og veiðigjöldin sem hafa verið á dagskrá þarf að klára. Þau munu taka þann tíma sem þarf.“
Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, segir stöðuna algerlega óljósa.
„Það er alveg ljóst að þau eru fallin á tíma með mörg mál og það var vitað fyrir töluverðu síðan. Það sem kemur manni mest á óvart er að það sé ekki skýrari sýn um það hvernig þau ætli að ljúka þessu þingi.“
Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, segir seinkun þingloka skýrast að hluta til af því að þingið hafi byrjað seint.
„Metnaður ráðherra var kannski ívið meiri heldur en sá tímarammi gerði raunhæft. Þess vegna finnum við okkur í þessari stöðu í dag,“ segir hann. Hann telur líklegt að fyrripart vikunnar verði ljóst „hvort forsendur eru til að hnýta þetta saman“.
Bergþór segir allnokkur mál sem flokkurinn vilji alls ekki að nái fram að ganga. Þar nefnir hann frumvarp um veiðigjöld og bókun 35.
Ingibjörg segir framsóknarmenn hafa varað við ákveðnum málum, frumvarpi um veiðigjöld þar á meðal.
„Við teljum að það sé ekki nægilega vel unnið til að það sé skynsamlegt að halda áfram með það mál,“ segir hún. Gögn séu enn að berast.
Gleypa fílinn í einum bita
Vilhjálmur Árnason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir ríkisstjórn fyrir að veita þingmönnum ekki nægilegar upplýsingar og gögn. „Þeir ætla að gleypa fílinn í einum bita og gera stórar og alvarlegar kerfisbreytingar á nokkrum kerfum á hlaupum,“ segir hann. Ríkisstjórnin sé með dagskrárvaldið og beri ábyrgð á að koma með lausnirnar.