Geislavirkir Alls voru 30 eintök af límmiðunum flutt til Íslands.
Geislavirkir Alls voru 30 eintök af límmiðunum flutt til Íslands. — Ljósmynd/Geislavarnir ríkissins
Geislavarnir ríkisins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem vakin er sérstök athygli á innköllun á límmiðum sem innihalda geislavirk efni. Um er að ræða vöruna Quantum Shield – Nano technology, límmiða framleidda af fyrirtækinu Fan Yun Craft Electronics Co

Geislavarnir ríkisins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem vakin er sérstök athygli á innköllun á límmiðum sem innihalda geislavirk efni.

Um er að ræða vöruna Quantum Shield – Nano technology, límmiða framleidda af fyrirtækinu Fan Yun Craft Electronics Co. í Kína.

Varan var seld undir þeim formerkjum að hún verji fólk gegn geislun frá 5G-sendum.

Í tilkynningunni kemur fram að alls hafi 30 eintök af þessum límmiðum verið flutt til landsins.

Þeir voru seldir í versluninni JK vörum á tímabilinu frá júlí til desember árið 2023. Þótt innflytjandi hafi þegar innkallað vöruna hafa ekki allir límmiðarnir skilað sér til baka.

Þar að auki eru líkur á því að fleiri hafi nálgast límmiðana í gegnum erlendar netverslanir eins og AliExpress og Temu.

Ekki farga með heimilissorpi

Geislavarnir ráðleggja fólki sem á slíka límmiða að hætta tafarlaust notkun þeirra. Jafnframt er lögð áhersla á að límmiðunum skuli ekki fargað með almennu heimilissorpi, heldur skal skila þeim til Geislavarna ríkisins, sem staðsettar eru á Rauðarárstíg 10, á 4. hæð.

Varan hefur einnig verið tilkynnt í evrópska tilkynningakefinu Safety Gate sem heldur utan um hættulegar vörur á evrópskum markaði.

Þeir sem hafa Quantum Shield-límmiða undir höndum eru eindregið hvattir til þess að fylgja leiðbeiningum Geislavarna ríkisins og koma vörunni í viðeigandi meðferð hið fyrsta.

Við mikla geislun í stuttan tíma getur komið fram ógleði, uppköst, höfuðverkur, þreyta, húðroði, niðurgangur, hiti og hárlos.

Við langvarandi útsetningu má búast við þreytu, húðvandamálum, veikluðu ónæmiskerfi og aukinni hættu á krabbameini.