Tinna Björt Jónsdóttir
tbj@mbl.is
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur segir að þegar sé farið að skoða mismunandi sviðsmyndir fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, þótt enn sé töluverður tími til stefnu. „Það er eiginlega lítið hægt að gera annað en að setja niður sviðsmyndir um það sem kynni að vera fram undan miðað við tilteknar aðstæður og það er eitthvað sem við erum farin að vinna að núna með haustinu,“ segir Fannar.
„Við vonumst til þess að aðstæðurnar verði ekki til þess að trufla að það verði hefðbundnar kosningar hjá okkur í Grindavík,“ segir hann og bætir við að kosningar muni fara fram.
Oddvitar flokka sem hafa boðið fram í bænum staðfesta eða gefa sterklega til kynna að þeir ætli að taka þátt í kosningunum. Hjálmar Hallgrímsson oddviti Sjálfstæðisflokksins staðfestir að flokkurinn hyggist bjóða fram. Hann bendir þó á að íbúatalan sé orðin lægri en 900 og segir óljóst hvort ástæða verði til þess að fækka í bæjarstjórninni.
Hallgerður G. Hólmgrímsdóttir oddviti Miðflokksins staðfestir einnig að Miðflokkurinn ætli að bjóða fram í komandi kosningum. „Þetta verður auðvitað svolítið skrýtið. Hér eru tæplega 900 manns með lögheimili, en eins og staðan er núna þá búa hérna kannski um 100 manns. Þeim fer þó fjölgandi með gistiákvæði Þórkötlu. Þannig að ég held að það sé svolítið erfitt að segja til um það núna en næstu mánuðir munu skýra þessa mynd betur. Þeir sem búa hér og þeir sem hafa hér lögheimili hafa sterkar skoðanir og vilja sjá sveitarstjórnarkosningar hérna í vor og taka þátt í þeim. Það er einhugur í fólki,“ segir Hallgerður.
Siggeir Fannar Ævarsson, oddviti Samfylkingar og óháðra, segir formlega ákvörðun ekki hafa verið tekna en áhugi sé fyrir hendi. „Við þurfum eiginlega að halda félagsfund og smala saman fólki og athuga hvernig stemningin er,“ segir hann og bætir við að fólk sé þó ákveðið í að gefast ekki upp án þess að kanna alla möguleika.
Oddvitarnir eru sammála um að þrátt fyrir erfiðar aðstæður ríki bjartsýni meðal íbúanna. Fólk vilji halda áfram og móta áætlanir fyrir framtíð Grindavíkur. Hvorki náðist í Ásrúnu Helgu Kristjánsdóttur oddvita Framsóknar né Helgu Dís Jakobsdóttur, oddvita Raddar unga fólksins.