Bið Elon Musk hefur lengi lofað sjálfakandi leigubílum.
Bið Elon Musk hefur lengi lofað sjálfakandi leigubílum. — AFP/Jim Watson
Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla hóf um helgina prófanir á sjálfakandi leigubílum sem fyrirtækið hefur þróað. Verða bílarnir á ferðinni í borginni Austin í Texas, þar sem höfuðstöðvar Tesla hafa verið frá árinu 2021

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla hóf um helgina prófanir á sjálfakandi leigubílum sem fyrirtækið hefur þróað. Verða bílarnir á ferðinni í borginni Austin í Texas, þar sem höfuðstöðvar Tesla hafa verið frá árinu 2021.

Um er að ræða bifreiðar af gerðinni Model Y og hefur Tesla boðið sérvöldum hópi fólks að nýta sér þjónustuna. Enginn ökumaður verður um borð í bílunum en eftirlitsmaður mun sitja í fremra farþegasætinu. Til að byrja með verður skutlið ekki í boði þegar illa viðrar, og bílarnir munu sneiða hjá flóknum gatnamótum sem sjálfakstursbúnaðurinn gæti átt erfitt með. Þá munu þeir sem bóka sér far þurfa að vera að lágmarki 18 ára gamlir.

Tesla hefur þróað sjálfaksturstækni um langt skeið en ólíkt öðrum fyrirtækjum sem hafa gert sig gildandi á þessu sviði notar Tesla eingöngu myndavélar til að greina umhverfi og umferð, frekar en að notast við radarkerfi.

Á stórsýningu Tesla í október síðastliðnum sýndi fyrirtækið frumgerð af bifreið sem fékk nafnið Cybercab en um var að ræða tveggja sæta farartæki með vænghurðum, rúmgóðu skotti og engu stýri – enda hugmyndin að láta myndavélaskynjara og tölvu sjá um aksturinn. Við sama tækifæri svipti Tesla hulunni af hugmyndabílnum Robovan sem væri best lýst sem n.k. sjálfakandi strætó fyrir allt að 20 farþega.

Stóri vinningurinn

Fjárfestar virðast binda miklar vonir við að Tesla takist að verða leiðandi á sviði sjálfakandi leigubíla en Elon Musk, stofnandi fyrirtækisins, hefur lengi fullyrt að slík ökutæki væru handan við hornið. Tesla gat snemma boðið upp á bíla sem gátu ekið sér sjálfir við tilteknar aðstæður, s.s. á hraðbrautum, og þá með ökumann við stýrið sem væri reiðubúinn að grípa inn í ef þess þyrfti. Öllu flóknara hefur verið að koma tækninni á það stig að ráða við meira krefjandi aðstæður líkt og skapast í síbreytilegri borgarumferð og hafa gagnrýnendur sakað Musk um að lofa upp í ermina á sér.

Það kann að setja strik í reikninginn að á sama tíma og Tesla greindi frá að prófanir væru að hefjast í Austin bárust fréttir af að ríkisstjóri Texas hefði undirritað ný lög um starfsemi sjálfakandi bifreiða. Lögin taka gildi í september og þykja marka fráhvarf frá fyrri stefnu stjórnvalda í ríkinu sem áður vildu flækjast sem minnst fyrir þróun sjálfakandi farartækja. Nýju lögin kveða m.a. á um að sækja verði um sérstakt leyfi áður en sjálfakandi bifreiðum er hleypt út í almenna umferð.

Evrópa rekur lestina

Prófanir á sjálfakandi bílum eru þegar komnar nokkuð vel á veg í Bandaríkjunum og víðar. Fyrirtækið Waymo, sem er dótturfélag Alphabet, er með sjálfakandi leigubíla á ferðinni í San Francisco, Los Angeles, Austin og Phoenix. Þá er félagið Zoox, sem er í eigu Amazon, með prófanir í gangi í Las Vegas og San Francisco. Víða í kínverskum borgum má finna sjálfakandi bifreiðar þarlendra framleiðenda og þá hafa bæði bæði smærri og stærri tilraunir farið fram víðs vegar í Evrópu og greindi t.d. skutlmiðlunin Uber frá því fyrr í mánuðinum að fyrirtækið myndi á næsta ári hefja tilraunir með sjálfakandi leigubíla á götum Lundúna. ai@mbl.is