Gjöf Sigrún og kyrtillinn á gínu. Annríkishjónin fremst og síðan aðrir aðstandendur verksins.
Gjöf Sigrún og kyrtillinn á gínu. Annríkishjónin fremst og síðan aðrir aðstandendur verksins.
Sigrún Snorradóttir (Asmundsson í Vesturheimi), forseti Íslendingadagsnefndar á Gimli í Manitoba í Kanada, var gestur íslenskra stjórnvalda í tengslum við hátíðarhöldin 17. júní, hitti ráðamenn og fleiri og tók við glæsilegri gjöf, fjallkonukyrtli…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigrún Snorradóttir (Asmundsson í Vesturheimi), forseti Íslendingadagsnefndar á Gimli í Manitoba í Kanada, var gestur íslenskra stjórnvalda í tengslum við hátíðarhöldin 17. júní, hitti ráðamenn og fleiri og tók við glæsilegri gjöf, fjallkonukyrtli fyrir fjallkonu Íslendingadagsnefndar frá fyrirtækinu Annríki – þjóðbúningum og skarti, sem sérhæfir sig í öllu sem viðkemur íslenskum búningum. „Ég var hér sem fulltrúi Vestur-Íslendinga en sit reyndar beggja vegna borðs, því ég er bæði íslenskur og kanadískur ríkisborgari,“ segir Sigrún.

Í haust verða liðin 150 ár frá því að Íslendingar settust að við vestanvert Winnipegvatn. Af því tilefni hafa verið skipulagðir margir viðburðir í Winnipeg og á Nýja-Íslandi í ár. Þar ber árlega Íslendingadagshátíð á Gimli um verslunarmannahátíðina hæst og gengur undirbúningur vel að vanda. „Hátíðin hefur lengi verið stór í sniðum en við viljum gera enn betur en áður í ár með viðameiri dagskrá,“ segir Sigrún. Sagan sé löng og merkileg og hún vilji ekki síst vekja athygli á Íslendingum sem hafa gert garðinn frægan vestra.

Eftirminnileg heimsókn

Sigrún fæddist á Íslandi en flutti á fimmta ári með foreldrum sínum, Gunnvöru Daníelsdóttur og Snorra Ásmundssyni, til Winnipeg. Hún hefur haldið við íslenskunni og oft komið til Íslands, en þessi ferð var öðruvísi en allar hinar. „Ég hitti og kynntist fólki sem ég hafði ekki séð áður, og skoðaði merkar byggingar eins og Stjórnarráðshúsið, Alþingishúsið og Bessastaði í fyrsta sinn. Svo fékk ég líka tækifæri til þess að vera leiðsögumaður, fór með vinkonu minni frá Danmörku gullna hringinn, sýndi henni meðal annars Þingvelli, Geysi og Gullfoss.“

Gunnvör, móðir Sigrúnar, er fjallkona Íslendingadagsnefndar í ár. Hún hefur þrisvar verið beðin um það en taldi að hlutverkið ætti að vera í höndum kvenna frá Manitoba. Hún féllst loks á að verða við óskinni og verður því fyrst til að klæðast nýja kyrtlinum sem 19 konur komu að undir stjórn hjónanna Guðrúnar Hildar Rosenkjær og Ásmundar Kristjánssonar, eigenda Annríkis. Fulltrúar hópsins afhenda gjöfina formlega á Gimli áður en dagskráin hefst en Sigrún tekur skartið með sér vestur. „Þetta er glæsileg gjöf frá íslenskum konum til vesturíslenskra kvenna og ánægjulegt að hafa veitt henni móttöku á kvenréttindadeginum 19. júní.“

Halla Tómasdóttir forseti Íslands verður heiðursgestur á Íslendingadagshátíðinni í ágúst. Sigrún hitti hana á Bessastöðum og segir það hafa verið ánægjulega stund. Jenny Hill, sendiherra Kanada á Íslandi, flytur minni Íslands á Íslendingadeginum. „Við áttum fróðlegt samtal,“ segir Sigrún og bætir við að hún sé margs vísari eftir að hafa hitt embættismenn og fleiri. „Þetta var frábær ferð, árangursrík og eftirminnileg, og eflir vonandi enn frekar tengslin milli Íslendinga og Vestur-Íslendinga. Ég fer með gott veganesti til Kanada og við bjóðum alla Íslendinga velkomna á íslendingadagshátíðina hér eftir sem hingað til.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson