Þrautseigja Gert að sárum vegfaranda eftir að írönsk skotflaug hæfði byggð suður af Tel Avív. Bjartsýni einkennir ísraelskan verðbréfamarkað.
Þrautseigja Gert að sárum vegfaranda eftir að írönsk skotflaug hæfði byggð suður af Tel Avív. Bjartsýni einkennir ísraelskan verðbréfamarkað. — Ljósmyund/John Wessels
Hlutabréfamarkaðurinn í Ísrael hefur ekkert gefið eftir, þrátt fyrir hernaðarátök og sprengjuregn undanfarinna daga. Líkt og Morgunblaðið greindi frá fyrir viku styrktust tvær mikilvægustu hlutabréfavístölur Ísraels strax eftir að Ísraelsher hóf árásir sínar á Íran

Hlutabréfamarkaðurinn í Ísrael hefur ekkert gefið eftir, þrátt fyrir hernaðarátök og sprengjuregn undanfarinna daga.

Líkt og Morgunblaðið greindi frá fyrir viku styrktust tvær mikilvægustu hlutabréfavístölur Ísraels strax eftir að Ísraelsher hóf árásir sínar á Íran. Bæði TA35-vísitalan og TA125-vísitalan hafa styrkst hvern einasta dag síðan þá og hafa aldrei mælst hærri.

TA35 hækkaði um 1,5% á sunnudag, og TA125 um 1,8% í kjölfar frétta um að Bandaríkjaher hefði gert árásir á hernaðarskotmörk í Íran. Síðarnefnda vísitalan, sem mælir hlutabréfaverð 125 stærstu fyrirtækja Ísraels, hefur styrkst um 8% á undanfarinni viku.

Hlutabréfamarkaður Ísraels hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár og hefur t.d. TA35-vísitalan styrkst um 111% á undanförnum fimm árum, en undanfarna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um liðlega 46%.

Reuters hefur eftir markaðsgreinendum að hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna yfir helgina hafi að líkindum dregið úr hernaðarlegum mætti Írans og gert að engu möguleika Íransstjórnar til að framleiða kjarnorkuvopn, en fyrir vikið er orðið friðvænlegra í Mið-Austurlöndum og ætti það að vera ísraelsku atvinnulífi lyftistöng.

Samhliða styrkingu hlutabréfamarkaðarins hefur áhættuálag Ísraels lækkað og nýsjekellinn styrkst. Er sjekellinn um 1% sterkari nú en hann var í byrjun mánaðarins.

Persaflóinn á suðupunkti

Áhugavert verður að sjá hvernig markaðir á Vesturlöndum bregðast við á mánudag en greinendur virðast flestir reikna með að hlutabréfaverð leiti niður á við þegar viðskipti hefjast, m.a. vegna fyrirsjáanlegra áhrifa harðnandi átaka á heimsmarkaðsverð á olíu. Olíuverð hækkaði strax þegar átök Ísraels og Írans hófust en sumir greinendur hafa bent á að meðan Bandaríkin héldu sér til hlés hafi írönsk stjórnvöld gætt þess að grípa ekki til aðgerða sem gætu ógnað eða raskað olíuframleiðslu og -flutningum á Persaflóasvæðinu. Ekki er hægt að útiloka að ráðamenn í Teheran reyni núna að hefna sín með árásum á olíugeirann, en á bilinu 25-30% af allri þeirri olíu sem heimsbyggðin notar eiga uppruna sinn í og við Persaflóann.

Á móti kemur að Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið skýrt til kynna að árásum verði hætt í bili, en að nóg sé af skotmörkum til viðbótar ef Íransher reynir að færa sig upp á skaftið. Til þessa hafa skotflaugar Ísraels og Bandaríkjanna að mestu hlíft efnahagslegum innviðum Írans, en ekki myndi þurfa mikið til að gera t.d. út af við getu landsins til að framleiða og flytja út olíu og þar með kippa endanlega fótunum undan íranska hagkerfinu og íranska hernum um leið.