Reglugerð Ráðherrann fyrrverandi segir að umræða um reglugerð sem hann setti í ráðherratíð sinni sé á villigötum, hún hafi verið til einföldunar.
Reglugerð Ráðherrann fyrrverandi segir að umræða um reglugerð sem hann setti í ráðherratíð sinni sé á villigötum, hún hafi verið til einföldunar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir umræðu um reglugerð um framkvæmd hollustuhátta sem hann innleiddi í ráðherratíð sinni vera á villigötum. Reglugerðin hafi verið innleidd til einföldunar en ekki til að auka flækjustig

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir umræðu um reglugerð um framkvæmd hollustuhátta sem hann innleiddi í ráðherratíð sinni vera á villigötum. Reglugerðin hafi verið innleidd til einföldunar en ekki til að auka flækjustig.

Veitingamenn hafa undanfarið gagnrýnt seinagang í veitingu starfsleyfa frá Reykjavíkurborg harðlega en Guðlaugur segir reglugerðinni frá 2024 ekki vera um að kenna. Ráðherrann fyrrverandi segir flækjustigið byggjast á lögum sem sett voru árið 2017, er hann var utanríkisráðherra, sem og rangri lagatúlkun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

„Þetta er í besta falli misskilningur. Fjögurra vikna auglýsingafrestur til þess að unnt sé að skila inn umsögnum var leiddur í lög árið 2017, þegar ég var utanríkisráðherra. Ég var að einfalda allan minn tíma sem ráðherra, ég setti 47 atvinnugreinar inn í skráningarskyldu í stað starfsleyfisskyldu og var harðlega gagnrýndur af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir vikið sem töldu mig vera að taka hryggjarstykkið úr eftirlitunum,“ segir Guðlaugur í samtali við Morgunblaðið.

Guðlaugur segir að einungis Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, af þeim níu heilbrigðiseftirlitum sem eru starfandi í landinu, túlki reglugerðina með svo íþyngjandi hætti.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur lagt fram reglugerð í samráðsgátt þar sem boðað er að veitingarekstur verði gerður skráningarskyldur í stað þess að hann sé starfsleyfisskyldur. Guðlaugur segir að með þessu sé ráðherra að halda áfram þeirri vinnu sem hann hafi sjálfur hafið í sinni ráðherratíð.

„Við gerðum 47 atvinnugreinar skráningarskyldar og vorum með fleiri á leiðinni. Jóhann getur gert þetta því að við unnum vinnuna.“

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson