Norðurþing Slökkvilið Norðurþings var í umræðunni nýlega.
Norðurþing Slökkvilið Norðurþings var í umræðunni nýlega. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Fjárfestingar Norðurþings í slökkviliði sveitarfélagsins eru harðlega gagnrýndar í bókun sem oddviti Vinstri grænna lagði fram á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku. Slökkvilið Norðurþings hefur verið í umræðunni síðastliðnar vikur eftir að í ljós…

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Fjárfestingar Norðurþings í slökkviliði sveitarfélagsins eru harðlega gagnrýndar í bókun sem oddviti Vinstri grænna lagði fram á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku.

Slökkvilið Norðurþings hefur verið í umræðunni síðastliðnar vikur eftir að í ljós kom að Grímur Kárason, sem nýlega sagði starfi sínu lausu sem slökkviliðsstjóri, hefði yfir margra ára tímabil vangreitt slökkviliðsmönnum laun. Vangreiddu launin sem um ræðir námu um 70 milljónum króna en starfsmenn hafa fengið helming upphæðarinnar greiddan til baka frá sveitarfélaginu.

Aldey Traustadóttir, oddviti Vinstri grænna, segist í bókun sinni ítrekað hafa gert athugasemdir fyrir hönd V-listans sem snúa að ákvörðunum um fjárfestingar og rekstur slökkviliðsins. Í bókuninni segir jafnframt að á sama tíma og fjárfestingar í öðrum verkefnum sveitarfélagsins hafi verið takmarkaðar hafi verið ráðist í stórfelldar og umdeildar fjárfestingar í búnaði og bílum fyrir slökkviliðið. Þá segir í bókuninni að fjárfest hafi verið í slökkvibíl án fjárheimildar.

Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar ásamt fulltrúa Samfylkingar lögðu fram bókun til þess að svara gagnrýni Aldeyjar. Í þeirri bókun segir að verulegs viðhalds hafi verið þörf á bæði búnaði og húsnæði slökkviliðsins samkvæmt skýrslu frá 2013, en auk þess hafi verið kvaðir á sveitarfélaginu um að byggja upp slökkviliðið sökum uppbyggingar á Bakka. Í bókuninni segir að þetta hafi skilað sér í einu best búna slökkviliði landsins.

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson