Sigríður Margrét Oddsdóttir
Sigríður Margrét Oddsdóttir
Aukinna efasemda gætir í atvinnulífi um efnahagshorfur, en enn telja þó fleiri efnahagsaðstæður góðar en slæmar. Hið sama er uppi á teningnum þegar spurt er um horfur næstu sex mánuði, þó að bjartsýni minnki áfram merkjanlega eins og tvo fyrri ársfjórðunga

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Aukinna efasemda gætir í atvinnulífi um efnahagshorfur, en enn telja þó fleiri efnahagsaðstæður góðar en slæmar. Hið sama er uppi á teningnum þegar spurt er um horfur næstu sex mánuði, þó að bjartsýni minnki áfram merkjanlega eins og tvo fyrri ársfjórðunga.

Hins vegar sker sjávarútvegurinn sig algerlega úr þegar litið er til svara eftir atvinnugreinum og mikil svartsýni ríkjandi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum reglubundinnar könnunar Gallup í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann um viðhorf forystumanna í atvinnulífinu.

Hjá sjávarútvegsfyrirtækjum telur um helmingur forsvarsmanna að staðan sé slæm, en að framtíðin sé enn dekkri. 61% þeirra telur að horfurnar eftir sex mánuði séu verri en staðan í dag, liðlega sjötti hluti að þær verði miklum mun verri þá en nú.

Það eru þó ekki aðeins forystumenn í sjávarútvegi, sem hafa áhyggjur, því viðhorf forsvarsmanna annarra veigamikilla útflutningsgreina bendir til þess að aðstæður fari fremur versnandi. Þar kunna viðsjár í alþjóðamálum að bætast ofan á áhrif fyrirhugaðrar hækkunar veiðigjalda.

Óvissan smitast

„Óvissan í kringum sjávarútveginn og sú orðræða sem hefur átt sér stað að undanförnu þar sem verið er að stilla upp landsbyggð á móti höfuðborgarsvæðinu og auðlindagreinum á móti almenningi, hún smitast út í atvinnulífið,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að SA hafi undanfarnar vikur verið á hringferð um landið í tilefni nýs starfsárs SA tileinkuðu öflugum útflutningi og auknum lífsgæðum.

„Á bæði fundum og í fyrirtækjaheimsóknum heyrum við að fólk vill bara fá vinnufrið og viðskiptavæn rekstrarskilyrði. Það er ákall eftir því að stjórnvöld lækki skatta á atvinnulíf frekar en hækki og jafnframt að fyrirtækjum verði einfaldað lífið, svo þau geti sinnt því sem þau eru best í, skapa verðmæti og sækja tækifæri.“

Sigríður Margrét segir það segja sína sögu að í sjávarútvegi telji tæp 40% fyrirtækja líklegt að starfsfólki muni fækka á næstu sex mánuðum en ekki einn einasti svarandi í sjávarútvegi ætli að fjölga starfsfólki.

„Ég held að það sé rétti tíminn núna til að stjórnvöld staldri aðeins við og endurmeti áhrif þeirra skattahækkana sem þau boða á atvinnulífið sem og þá aðferðafræði sem beitt er við innleiðingu breytinga á rekstrarumhverfi fyrirtækja.“

Höf.: Andrés Magnússon