Loki Íranir Hormússundi hefði það gífurlegar afleiðingar fyrir heiminn allan, ekki síst Ísland. Þetta segir hagfræðingurinn Þórður Gunnarsson og nefnir þar sérstaklega áhrif á íslenskan sjávarútveg.
„Þetta hefur aldrei gerst en hefur oft verið hótað,“ segir Þórður en íranska þingið hefur samþykkt lokun á siglingaleiðinni sem um 20% allrar olíu í heiminum berast í gegnum. „Ef það á allt í einu að loka á fimmtung allrar framleiðslu þá auðvitað lamast alþjóðahagkerfið.“
Yrði Hormússundi lokað myndi olíuverð hækka mikið. Þórður segir að fyrstu áhrifin sem Ísland fyndi fyrir vera í sjávarútvegi, þar sem olíukostnaður sé næstmesti kostnaðurinn á eftir launum.
„Ef það verður alvöru framboðsskellur við lokun þessa sunds mun verðbólga um allan heim rjúka upp, rétt eins og eftir innrás Rússa í Úkraínu. Við munum náttúrulega finna fyrir því. Við sem útflutningshagkerfi þolum svona skarpa hækkun mjög illa.“
Þá bendir hann á að hærra olíuverð komi illa við flugiðnaðinn, sem hefði áhrif á ferðaþjónustu hér á landi. Álverin segir hann ekki í eins mikilli hættu, þar sem þau séu ekki eins háð olíu. Hann segir lokun á sundinu skaða Kína mest. „Mér finnst líklegt að þeir leyfi þessu ekki að gerast.“ » 12 og 13