Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Oddvitar minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur eru mjög efins um þær hugmyndir, sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra boðaði á opnum fundi á Ísafirði í liðinni viku, að lagt yrði auðlindagjald á þá sem nytu náttúruauðlinda til húshitunar og raforku.
„Þessar hugmyndir Samfylkingar eru verulega vanhugsaðar og enn ein tilraunin til að hækka skatta á heimilin,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
„Það er engum blöðum um það að fletta að sérstakt auðlindagjald á jarðhita mun leiða til verðhækkana á bæði hitaveitu og raforku til neytenda. Borgarbúar búa nú þegar við óhagstætt skattaumhverfi í boði Samfylkingar og er ekki á það bætandi.“
Einar Þorsteinsson oddviti framsóknarmanna tekur í sama streng.
„Ég er forviða á hugmyndum Kristrúnar Frostadóttur um að leggja á sérstakt auðlindagjald á íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta minnir á þegar Jóhönnustjórnin stýrði landinu og vildi skattleggja allt og alla. Ódýr hitaveita hefur til áratuga verið grundvallarlífsgæði, sem við eigum saman, og íbúar hafa brugðist mjög illa við þegar verð hefur hækkað.“
Hann er í litlum vafa um viðbrögðin.
„Ég býst við að þessi nýja skattheimta Samfylkingarinnar muni mælast afar illa fyrir og við munum berjast gegn henni.“
Hildur segir að orkuöflun hafi verið í algjörri kyrrstöðu um árabil, sem hafi leitt af sér miklar hækkanir á raforku. Hún hljóti að berjast gegn skattahækkunum, sem leiði af sér frekari verðhækkanir.
„Síðasta áratug hefur skattbyrði á hvert vinnandi heimili í Reykjavík aukist um að meðaltali um 700.000 kr. árlega á föstu verðlagi, ef við lítum aðeins til skattheimtu borgarinnar. Það verður að stöðva þessa þróun enda löngu tímabært að lækka skatta og gjöld í Reykjavík.“