Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur um helgina verið í Róm á fundi alþjóðaþingmannasambandsins þar sem trúarmál voru til umræðu.
Í fjarveru hennar tók Vilhjálmur Árnason varaformaður þingflokksins við keflinu. „Það var ánægjulegt að fá að halda á keflinu á meðan hún fór og hitti páfann. Enda öflugt og duglegt fólk í flokknum,“ segir Vilhjálmur í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. Hann segir heiður að fá að gegna þessu hlutverki.
„Við erum samheldinn og öflugur þingflokkur sem er settur saman af sömu hugsjón. Þetta gekk bara vel. Við vorum samheldin og kröftug í að benda á okkar málstað í þinginu á meðan,“ segir Vilhjálmur.
„Ég tel að það hafi verið vel til fundið hjá henni og alþjóðaþingsmannaambandinu að fara og hitta nýkjörinn páfa,“ bætir hann við.
Í Vatíkaninu varð Hildur þess heiðurs aðnjótandi að hljóta blessun nýkjörins páfa, Leós XIV. „Þetta var magnaðri upplifun en ég hafði gert mér í hugarlund,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is á laugardaginn.