Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Margmenni var mætt austur á Mosfellsheiði í gær þegar gamalt sæluhús sem þar stendur var vígt, eftir endurgerð. Verkefni þetta hefur staðið yfir í nokkur ár og hefur Ferðafélag Íslands haft frumkvæði í því starfi. Bygging þessi var upphaflega reist um 1890 við nýjan veg til Þingvalla sem gengur núna undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn. Að sú leið væri farin lagðist af um 1930 og fljótlega fór húsið að molna niður. Þegar fram liðu stundir rann ýmsum til rifja að sjá aðeins rústir þarna og vildu að úr væri bætt.
Verkefnið féll að markmiðum
Árbók Ferðafélags Íslands árið 2019 er um Mosfellsheiði. Í bókinni segja höfundarnir, þau Bjarki Bjarnason, Jón Svanþórsson og Margrét Sveinbjörnsdóttir, meðal annars frá sæluhúsinu góða. Segja má að sú frásögn hafi komið málinu á hreyfingu meðal annars með starfi tvíburabræðranna Ævars múrsmiðs og Örvars húsasmiðs Aðalsteinssona í Mosfellsbæ. Þegar öll leyfismál vegna framkvæmda voru í höfn var þeim bræðrum falin endurreisnin, sem tekið hefur verið í áföngum.
„Þetta skemmtilega verkefni fellur vel að markmiðum og starfi Ferðafélags Íslands. Okkar hlutverk er meðal annars að standa að ferðum um landið og kynna fólki náttúru þess. Einnig að halda ýmsum sögulegum fróðleik til haga auk þess sem við eigum sæluhús víða um land. Í þessari framkvæmd hér á Mosfellsheiðinni má segja að allt þetta fari saman,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ.
Húsið er byggt úr tilhöggnu grágrýti, var 7x4 m að flatarmáli og veggir 1,80 m á hæð. Þegar endurhleðsla hófst var nokkuð af því grjóti sem upphaflega myndaði veggina enn á staðnum og það nýttist vel. Annað var sótt og flutt á staðinn. Á húsinu er risþak, klætt með bárujárni, og útidyr á langvegg. Allt þetta hefur verið sett saman mjög haganlega og byggingin fellur vel inn í landslagið.
Heildarkostnaður við framkvæmdir var 14 millj. kr. og fékk verkefnið stuðning víða frá, meðal annars úr Húsafriðunarsjóði.
Fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 var nýr þjóðvegur lagður til Þingvalla og var sá á svipuðum slóðum og akvegurinn sem liggur þangað nú. Gamli Þingvallavegurinn fór með því úr notkun svo og sæluhúsið sem um síðir féll undan eigin þunga. En hvað bíður sinnar stundar, eins og segir í fornum bókum, nú er heiðin aftur hýst; hvar er bygging sem var ferðamönnum fyrri tíðar mikilvægt skjól í ýmsum veðrum.
Um torfæran slóða
En hvar var eða er sæluhúsið? Fyrst liggur leiðin að fólkvanginum í Bringum efst í Mosfellsdal, beygt er til suðurs ofan við Gljúfrastein. Svo er ekið áfram til austurs um slóða meðfram Nesjavallalínu. Svo er beygt til vinstri á miðri heiðinni, og þá eru tæpir tveir kílómetrar að sæluhúsinu. Er á þeim síðasta spöl um mjög torfæran slóða að fara, sem aðeins er fær vel búnum jeppum. Og þarna ræðir um Gamla Þingvallaveginn, eins og fyrr er nefnt, leið sem Minjastofnun er áfram um að friðlýsa, skv. því sem Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá stofnuninni, greindi frá við athöfnina í gær.