Grindhvalavaða strandaði í Ólafsfirði á laugardag. Vaðan synti inn fjörðinn og að höfninni, þar sem fjöldi manns náði að skoða hana og mynda í góða stund, áður en hún var flæmd þaðan til að koma henni aftur út í fjarðarmynnið. Flest dýranna, 60-70, tóku þá óvænt stefnuna á grynningar við botn fjarðarins, við Ósbrekkusand. Lítill grindhvalahópur dólaði fyrir utan á meðan björgunarsveitarmenn frá Akureyri, Dalvík og Fjallabyggð auk fleiri sjálfboðaliða reyndu að koma hinum dýrunum á flot. Tókst það um kvöldmatarleytið. Þeir fjölmörgu sem fylgdust með aðgerðunum voru sammála um að þarna hefði verið unnið þrekvirki, að sögn Sigurðar Ægissonar fréttaritara Morgunblaðsins.