Baksvið
Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Eitt helsta kosningaloforð
Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir forsetakosningarnar 2024 var að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda yfir landamærin við Mexíkó og fara í umfangsmestu brottvísunaraðgerðir sögunnar. Nú, eftir að hafa verið í embætti í hálft ár, má segja að honum hafi tekist að ná fyrri hluta markmiðsins en ekki þeim seinni.
Landamæraeftirlitið í Bandaríkjunum (CBP) birtir tölur yfir hversu oft það tekur á móti fólki sem fer ólöglega yfir landamærin. Vert er að taka fram að ekki er öllum af þessum innflytjendum hleypt inn í landið en þó fá töluvert margir að fara inn í landið á meðan þeir bíða eftir því að mæta fyrir dómstóla, þessi stefna hefur verið kölluð „handtaka og sleppa“.
Undir stjórn Joes Bidens fyrrverandi Bandaríkjaforseta klófesti landamæraeftirlitið árlega yfir tvær milljónir ólöglegra innflytjenda sem voru á leið yfir landamærin við Mexíkó. Þar fengu á þriðju milljón manns að fara beint inn í Bandaríkin til að fara fyrir dómstóla, og fengu fram að réttarhöldum að vera frjálsir innan Bandaríkjanna. Þar að auki er talið að um tvær milljónir hafi komist yfir landamærin án þess að landamæraeftirlitið hafi náð í skottið á þeim.
Aldrei í seinni tíð hafa jafn margir ólöglegir innflytjendur farið yfir landamærin og undir stjórn Bidens, og í kosningunum var þetta næststærsta málið að mati kjósenda, samkvæmt flestum könnunum og útgönguspám. Nú hefur Trump hert tökin svo mikið að þeim hefur fækkað að miklum mun sem reyna að komast ólöglega yfir landamærin.
Hægt er að bera saman árangur Trumps í þessum efnum það sem af er ári við sama tíma á síðustu árum. Ef skoðaðar eru tölur frá landamærunum við Mexíkó í febrúar, mars, apríl og maí síðastliðnum komu alls 47.209 manns yfir landamærin ólöglega og í fangið á landamæraeftirlitinu en á sama tímabili í fyrra var fjöldi þeirra 729.725. Því er um að ræða hátt í 94% fækkun á milli ára. Árin 2023 og 2022 var fjöldi ólöglegra innflytjenda svipaður og á sama tímabili árið 2024, og ef árin 2022 og 2025 eru borin saman er um að ræða hátt í 95% fækkun.
Ráðist í margar aðgerðir
Trump hefur ráðist í margar aðgerðir til að hindra flæði fólks. Ein af þeim aðgerðum sem hafa skilað hvað mestu er forsetatilskipun þess efnis að menn geti ekki sótt um hæli eftir að þeir hafa verið teknir við að koma yfir landamærin ólöglega. Allir hælisleitendur sem ekki eru frá Mexíkó en ætla sér að komast yfir landamærin þar fá til dæmis ekki að koma í Bandaríkin á meðan unnið er úr umsókn þeirra. Þá hefur Trump bundið enda á þá stefnu að sleppa mönnum úr haldi á meðan þeir bíða eftir því að mæta fyrir dómstóla. Auk þess að ráðast í ýmsar aðgerðir til að gera það nær ómögulegt að flytjast til Bandaríkjanna nema í gegnum hið lögbundna innflytjendakerfi hefur hann einnig sent hermenn að landamærunum til að vakta þau betur.
Aftur á móti lofaði Donald Trump því einnig að brottvísa metfjölda fólks sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum, sem talið er sé á annan tug milljóna manna. Í viðtali við tímaritið Time á síðasta ári kvaðst Trump vilja vísa um 15 milljónum manna úr landi. Samkvæmt Time hefur Bandaríkjastjórn tekist að vísa 207 þúsund manns úr landi það sem af er ári. Heildarfjöldinn er svipaður og síðustu ár, þó örlítið meiri. Munurinn er þó sá að fleiri af þeim sem vísað er úr landi nú eru handteknir í Bandaríkjunum, á meðan fleiri var áður vísað úr landi við landamærin þar sem þeir komu ólöglega yfir landamærin.
Í maí tók innflytjendastofnunin ICE að fjölga brottvísunarflugferðum úr landi, sem bendir til þess að fjöldi brottvísana gæti aukist hraðar á komandi mánuðum. Hluti af áskoruninni felst í því að finna staði til að taka við einstaklingum sem hefur verið vísað úr landi. Trump hefur brotið gegn rótgrónum viðmiðum og, að mati sumra, lögum með því að senda ólöglega innflytjendur í alræmt fangelsi í El Salvador og á herstöð Bandaríkjanna í Guantánamo-flóa. Tom Homan, sem fer fyrir ICE, segir við TIME að stjórnvöld séu í viðræðum við þrjú önnur lönd um að taka við fólki sem hefur verið vísað frá Bandaríkjunum.
Nýjasta útgáfan af efnahagsfrumvarpi Trumps, sem enn á eftir að samþykkja, inniheldur 168 milljarða dollara til innflytjenda- og landamæraeftirlits. Það væri fimmföld aukning á slíku fjármagni miðað við árið í ár þegar þingið veitti 33 milljörðum dollara til eftirlitsins. Trump hefur boðið fólki sem er tilbúið að fara úr landi á eigin vegum 1.000 dollara og ókeypis farmiða með áætlunarflugi.
En jafnvel með þessum hvata eru innflytjendur ekki að yfirgefa landið á þeim hraða sem Trump lofaði.