Þórir Garðarsson
Þórir Garðarsson
Við hvern keppir ferðaþjónustan eiginlega?

Þórir Garðarsson

Í nýrri skýrslu OECD er lagt til að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður upp í almennt þrep. Þar segir að það myndi „bæta samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina“. Þetta er villandi framsetning sem stenst ekki skoðun þegar litið er til skattaframkvæmdar.

Virðisaukaskattur er neytendaskattur, ekki fyrirtækjaskattur. Ferðaþjónustan „borgar“ ekki virðisaukaskatt – hún innheimtir hann frá viðskiptavinum og skilar honum áfram. Að tala um að atvinnugreinin borgi minna er rangt og ruglandi.

Þá má minna á að flest Evrópuríki hafa ferðaþjónustu í lægra VSK-þrepi. Meðalskatthlutfallið þar er um 10-11%. Ísland er því í takt við Evrópu í framkvæmd, ekki með neina sérmeðferð.

Jafnframt stenst ekki sú athugasemd að ferðaþjónusta sé í beinni samkeppni við aðrar atvinnugreinar á innlendum markaði. Ferðaþjónustufyrirtæki keppa fyrst og fremst við önnur ferðaþjónustufyrirtæki innanlands og erlendis, ekki við iðnað, verslun eða byggingarstarfsemi innanlands – nema að mjög takmörkuðu leyti.

Einnig þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta snýst ekki bara um erlenda ferðamenn. Íslendingar sjálfir kaupa ferðaþjónustu: fara út að borða, gista á hótelum, leigja bíla, kaupa afþreyingu og aðra ferðaþjónustutengda vöru eða þjónustu. Hækkun virðisaukaskatts á „ferðaþjónustu“ er því hækkun á neyslusköttum almennings, ekki bara skattlagning á „ferðamenn“.

Villandi framsetning OECD á þessu máli ætti að vera leiðrétt í opinberri umræðu. Skattastefna verður að byggjast á staðreyndum, ekki rangfærslum.

Höfundur er fyrrverandi varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Höf.: Þórir Garðarsson