Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Íranar skutu í gær 14 eldflaugum á al-Udeid-herstöð Bandaríkjamanna í Katar, og var árás þeirra sögð í hefndarskyni fyrir árás Bandaríkjamanna á kjarnorkuinnviði Írans um helgina. Loftvarnir náðu að skjóta niður 13 af flaugunum, en sú 14. geigaði og var því látin óáreitt. Enginn féll eða særðist í árásinni, hvorki Bandaríkjamenn né Katarar.
Herstöðin er helsta aðsetur CENTCOM, yfirstjórnar Bandaríkjahers í Mið-Austurlöndum, og eru þar að jafnaði um 8.000 bandarískir hermenn. Bandaríkjaher hefur á undanförnum vikum fært flugvélar og mannafla frá herstöðinni og til annarra stöðva, og var talið að það væri vegna hættunnar á því að Íranar réðust á stöðina sem og aðrar herstöðvar Bandaríkjamanna í heimshlutanum.
Íranskir ríkisfjölmiðlar sögðu í fyrstu að gerð hefði verið árás á herstöðvar Bandaríkjamanna í Katar og Írak, en í yfirlýsingu íranska þjóðaröryggisráðsins var einungis talað um árás á Katar. Þar sagði einnig að fjöldi eldflauganna hefði verið sá sami og Bandaríkjamenn skutu á Íran, og var þar vísað til hinna svonefndu „byrgjabana“ sem þeir skutu á úran-auðgunarstöðina í Fordo.
Þá staðfestu embættismenn í Írak við AFP-fréttastofuna að ekki hefði verið gerð árás á herstöðina Ain al-Assad, helstu herstöð Bandaríkjamanna í Írak, á þeirri stundu. „Við fylgjumst með stöðunni ef eitthvað skyldi gerast,“ sagði einn heimildarmaður AFP í gærkvöldi. Þá voru engin teikn um að ráðist yrði á alþjóðaflugvöllinn í Bagdad, þar sem bandarískir hermenn eru einnig með bækistöð. Báðar stöðvar voru þó í viðbragðsstöðu í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti brást við árásinni í gærkvöldi á samfélagsmiðli sínum Truth Social og sagði þar að hún hefði verið „mjög veik“. Sagðist hann telja að Íranar hefðu náð að „jafna sig“ eftir árás Bandaríkjamanna og að hann vonaðist til þess að ekki yrði meira „hatur“ úr þeirri áttinni. Þakkaði hann jafnframt Írönum fyrir að hafa varað Bandaríkjamenn við, þannig að hægt var að koma í veg fyrir manntjón. „Kannski getur Íran nú farið leiðina til friðar og samhljóms í heimshlutanum, og ég mun með glöðu geði hvetja Ísrael til þess að gera hið sama,“ sagði Trump m.a. í færslu sinni.
Stjórnvöld í Katar fordæmdu árás Írana og sögðu hana óþolandi árás á fullveldi sitt. Sögðust þau áskilja sér rétt til þess að svara í sömu mynt.
Réðust að byltingarverðinum
Ísraelsher réðst fyrr um daginn á skotmörk í Teheran, höfuðborg Írans. Gerði herinn þar loftárásir á höfuðstöðvar íranska byltingarvarðarins sem og nokkur önnur skotmörk sem tengdust honum. Þá gerðu Ísraelar loftárás á hlið Evin-fangelsisins, en þar hefur klerkastjórnin einkum fangelsað samviskufanga og andstæðinga íranskra stjórnvalda. Sögðust þeir í yfirlýsingu sinni hafa gætt þess að öryggi fanga væri tryggt.
Israel Katz varnarmálaráðherra sagði að Ísraelar hefðu beint árásum sínum í gær að þeim stofnunum klerkastjórnarinnar sem væru helstu kúgunartól hennar gagnvart almenningi í Íran, en Ísraelar hafa gefið í skyn að þeir vilji að klerkastjórnin falli í kjölfar aðgerða sinna gegn kjarnorkuáætlun hennar, án þess þó að kalla beint eftir stjórnarskiptum í landinu.
Reza Pahlavi, fyrrverandi krónprins Írans, sagði í gær að Vesturveldin ættu ekki að flýta sér að gera samkomulag við klerkastjórnina, nú þegar hún stæði á brauðfótum. Sagðist hann telja að klerkastjórnin riðaði til falls, og að réttara væri fyrir lýðræðisríkin að standa með írönsku þjóðinni en gefa klerkunum líflínu. „Endalok stjórnarinnar eru nærri, þetta er okkar Berlínarmúrsstund,“ sagði Pahlavi í viðtali við AFP-fréttastofuna.
Sagðist hann jafnframt hafa heimildir fyrir því að Ali Khamenei æðstiklerkur væri nú í felum í neðanjarðarbyrgi þar sem óbreyttir borgarar væru notaðir sem „mannlegir skildir“. Þá hefði hann þegar heyrt af því að háttsettir embættismenn og fjölskyldumeðlimir Khameneis leituðu nú leiða til að flýja land.
Svari Írana stillt í hóf?
Ýmislegt bendir til þess að svari Írana hafi verið stillt í hóf til þess að forðast að Bandaríkjamenn geri aftur loftárásir á landið. Abbas Araghchi utanríkisráðherra Írans sagði þó í gærkvöldi að klerkastjórnin væri reiðubúin að svara frekari árásum Bandaríkjamanna með svipuðum hætti.
Nokkrar vangaveltur hafa verið um hvernig Íranar gætu svarað fyrir sig og hefur þar einkum verið nefnt að þeir gætu gripið til aðgerða við Hormussund, eina helstu siglingaleið heims fyrir olíuflutningaskip frá Persaflóa. Ráða þeir m.a. yfir hraðbátaflota sem þeir gætu beitt til þess að ráðast beint að flutningaskipunum, auk þess sem þeir gætu lagt tundurdufl til þess að aftra umferð um sundið. Litið yrði þó á slíkar aðgerðir sem umtalsverða stigmögnun.
Viðbrögð Medvedevs
Íranar munu áfram auðga úran
Dmitrí Medvedev, varaformaður rússneska þjóðaröryggisráðsins og fyrrverandi Rússlandsforseti, brást við árás Bandaríkjamanna á Íran í fyrrakvöld með því að segja að hann gerði nú ráð fyrir að Íranar myndu halda áfram að auðga úran og í framhaldinu hefja framleiðslu á kjarnorkuvopnum. Sagði Medvedev jafnframt að nokkur önnur ríki væru tilbúin til þess að láta Írönum í té kjarnaodda.
Trump Bandaríkjaforseti tók ummælin óstinnt upp í gær og sagði að ekki væri rétt að henda fram kjarnorkuhótunum með jafnkærulausum hætti. Benti Trump jafnframt á kjarnorkuknúna kafbáta Bandaríkjanna, sem væru „öflugustu vopnin“ í sögu mannkyns, en einn slíkur skaut stýriflaugum í árás Bandaríkjamanna.
Medvedev brást við í gær með því að taka sérstaklega fram að Rússar myndu ekki gefa Írönum kjarnorkuvopn, en aðrir kynnu að gera það.