Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, NB.1.8.1, hefur ekki greinst í raðgreiningum í sýnum hér á landi, en borið hefur á afbrigðinu í útlöndum. Nýja afbrigðið kallast nimbus og virðist hvorki vera meira smitandi né valda skæðari veikindum en önnur afbrigði veirunnar.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að ekki hafi mikið verið gert af raðgreiningum á sýnum hér á landi að undanförnu, meðal annars af því að fá sýni hafi verið tekin og kostnaðarsamt sé að keyra raðgreiningar.
Sóttvarnalæknir fylgist vel með stöðunni í útlöndum og segir að einstaka lönd hafi tilkynnt aukinn fjölda greininga á kórónuveirunni. Nimbus-afbrigðið hefur greinst í ríkjum við austurhluta Miðjarðarhafsins, við Vestur-Kyrrahaf og í Suðaustur-Asíu. Á landamærum Bandaríkjanna hefur borið á nimbus-afbrigðinu í sýnum sem tekin eru úr fólki sem kemur úr ferðalögum frá þessum svæðum.
Einkenni sem fylgja afbrigðinu eru hefðbundin kórónuveirueinkenni; hiti, hósti og skert lyktar- og bragðskyn auk mikilla hálssærinda.
Það sem af er sumri hefur lítið verið um kórónuveirugreiningar hér á Íslandi en um þetta leyti í fyrra jukust greiningar mjög mikið.
„Það var sumarbylgja af covid í fyrra sem var alveg í júní, júlí og inn í haustið. Það er ekki alveg ljóst hvort það gerist núna, en það er frekar lítið um covid bara almennt,“ segir Guðrún og bætir við að lítið hafi verið um veikindi vegna kórónuveirunnar í vetur. Meira hafi verið af inflúensugreiningum og RS-veirugreiningum.