Efling hefur á borði sínu kjaramál er varða starfsfólk veitingastaðarins Kastrup. Mál starfsfólksins eru mismunandi en snúa flest að vangreiddum launum eða vanreiknuðum launum og orlofi hjá fyrri rekstraraðila

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Efling hefur á borði sínu kjaramál er varða starfsfólk veitingastaðarins Kastrup. Mál starfsfólksins eru mismunandi en snúa flest að vangreiddum launum eða vanreiknuðum launum og orlofi hjá fyrri rekstraraðila.

Frá þessu greinir upplýsingafulltrúi Eflingar í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins. Hann segir að málum félagsmannanna verði haldið fram þar til niðurstaða fæst í þau.

Tíu félagsmenn sem störfuðu á Kastrup leituðu til Eflingar í kjölfar þess að staðnum var lokað af skattayfirvöldum 2. maí. Fyrir lokunina höfðu þrír áður leitað til stéttarfélagsins á tímabilinu júlí 2024 til febrúar 2025.

Í svarinu kemur fram að Efling hafi ekki upplýsingar um hversu margir félagsmenn stéttarfélagsins starfi eða hafi starfað á Kastrup en að þau telji mjög líklegt að meirihluti núverandi og fyrrverandi starfsmanna sé eða hafi verið skráður í Eflingu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa félagsmenn í Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, einnig starfað á staðnum en ekki fengust svör frá Matvís um það hvort það hefði kjaramál félagsmanna sinna á Kastrup til skoðunar.

Tíu umsagnir í samráðsgátt

Staðurinn var áður í eigu Jóns Mýrdal sem hefur sagt skilið við reksturinn. Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, sem rekur 101 hótel í sama húsi, er nýr eigandi Kastrup. Staðurinn var opnaður fyrir gesti á ný 13. júní. Þá hafði hann verið lokaður síðan hann var innsiglaður en eins og Morgunblaðið hefur fjallað um þá áttu nýir rekstraraðilar erfitt uppdráttar við að fá leyfi fyrir opnun á ný.

Ástæðan var nýleg reglugerð um hollustuhætti sem kveður á um að heilbrigðiseftirlitið auglýsi fjögurra vikna frest til að koma athugasemdum á framfæri í kjölfar leyfisveitingar. Umhverfisráðherra hefur boðað breytingu á regluverkinu en umsagnarfrestur við breytingartillöguna rann út 18. júní í samráðsgátt. Alls bárust tíu umsagnir í gáttinni.

Höf.: Flóki Larsen