Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Endurgreiðslur úr ríkissjóði til sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar sem þau veittu erlendum ríkisborgurum sem hér dvelja námu ríflega 12.752 milljónum króna á árabilinu 2019 til 2024 og eru þó enn ekki öll kurl komin til grafar í því efni, þar sem uppgjöri vegna síðasta árs er ekki að fullu lokið.
Þetta kemur fram í svari Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur alþingismanns Sjálfstæðisflokksins.
Hæstar voru greiðslurnar árið 2023, en þær námu þá 4.647 milljónum, en næsthæstar voru þær í fyrra, tæpir 3,4 milljarðar. Sú tala er þó með fyrirvara um að uppgjöri vegna þess árs er ekki að fullu lokið.
„Þetta eru svakalega háar fjárhæðir,“ segir Diljá Mist í samtali við Morgunblaðið. Hún segir ekki koma á óvart að Úkraínumenn skuli hafa þegið háa fjárstyrki, enda hafi holskefla þeirra komið hingað til lands á flótta vegna árásar Rússa á landið. Hins vegar veki hátt hlutfall styrkþega af öðru þjóðerni nokkra athygli.
Fram kemur í svari Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, að hún hafi í hyggju að endurskoða endurgreiðslur ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar til útlendinga, en gert sé ráð fyrir að sú vinna fari fram í samráði við sveitarfélögin.
„Mér finnst ráðherrann svara spurningunni um áform sín um að bregðast við þessu ákaflega dauflega. Ég vek athygli á því að Flokkur fólksins keyrði mjög á þessu málefni í aðdraganda síðustu kosninga, kostnaði við hælisleitendur og málaflokk útlendinga,“ segir Diljá Mist.
„Er raunverulega verið að ganga úr skugga um að þessi kostnaður fáist ekki endurgreiddur frá heimaríki viðkomandi?“ spyr Diljá Mist, sem hyggst fylgja málinu frekar eftir á Alþingi.
Fjárstyrkir til útlendinga
85 milljónir 2019
1.520 milljónir 2020
1.311 milljónir 2021
1.794 milljónir 2022
4.648 milljónir 2023
3.395 milljónir 2024
Uppgjöri 2024 er ólokið