Erlendir ríkisborgarar voru 42% fanga í íslenskum fangelsum í fyrra og hefur fjölgað mjög undanfarin ár, en árið 2019 voru fangelsaðir erlendir ríkisborgarar 21% af heildarfjölda fanga og 14% árið 2014

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Erlendir ríkisborgarar voru 42% fanga í íslenskum fangelsum í fyrra og hefur fjölgað mjög undanfarin ár, en árið 2019 voru fangelsaðir erlendir ríkisborgarar 21% af heildarfjölda fanga og 14% árið 2014.

Þetta kemur fram í svari Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar alþingismanns Miðflokksins, en svar ráðherrans hefur verið birt á vef Alþingis.

Í fyrirspurninni var einnig spurt um hversu margir erlendir ríkisborgarar hefðu afplánað fangelsisdóm árið 2024 annars vegar og 15. mars 2025 hins vegar. Í svari ráðherrans segir að árið 2024 hafi 31 erlendur ríkisborgari að meðaltali afplánað fangelsisrefsingu á hverjum degi, en samtals hafi 218 erlendir ríkisborgarar sætt afplánun eða gæsluvarðhaldi í fangelsi það ár. Þann 15. mars 2025 hafi 32 erlendir ríkisborgarar verið í afplánun í fangelsinu.

Dagsetningin 15. mars 2025 er tilkomin vegna þess að fyrirspurnin var lögð fram á Alþingi þann 20. mars sl.

Þá var og spurt um hversu margir erlendir ríkisborgarar hefðu setið í gæsluvarðhaldi árið 2024 annars vegar og 15. mars 2025 hins vegar. Í svarinu segir að í fyrra hafi 28 erlendir ríkisborgarar að meðaltali sætt gæsluvarðhaldi dag hvern. Samtals hafi 208 erlendir ríkisborgarar setið í gæsluvarðhaldi það ár, þar af 63 á grundvelli útlendingalaga. Þann 15. mars 2025 sátu 37 erlendir ríkisborgarar í gæsluvarðhaldi, þar af fjórir á grundvelli útlendingalaga.

Þá var einnig spurt um hvaða dag flestir erlendir ríkisborgarar hefðu setið í gæsluvarðhaldi á tímabilinu frá 1. janúar 2024 til 15. mars 2025 og hversu margir þeir hefðu verið. Í svarinu segir að þær upplýsingar liggi ekki fyrir, en allt árið hafi 208 erlendir ríkisborgarar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald samanborið við 182 árið áður.

Fram kemur að á sama tíma hafi úrskurðum vegna íslenskra ríkisborgara einnig fjölgað. Árið 2024 voru 90 íslenskir ríkisborgarar úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en þeir voru 59 árið 2023.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson