Samherjar Starmer hitti Selenskí ásamt hermönnum í Lundúnum.
Samherjar Starmer hitti Selenskí ásamt hermönnum í Lundúnum. — AFP/ Jaimi Joy
Ellefu ára stúlkubarn lést í sprengjuárás Rússa í Kænugarði í gær. Alls dóu tíu manns og fleiri slösuðust í árásinni sem beint var að íbúðablokk í borginni. Þrjár vikur eru síðan fulltrúar Úkraínu og Rússlands hittust í Istanbúl til að ræða frið milli ríkjanna

Ellefu ára stúlkubarn lést í sprengjuárás Rússa í Kænugarði í gær. Alls dóu tíu manns og fleiri slösuðust í árásinni sem beint var að íbúðablokk í borginni.

Þrjár vikur eru síðan fulltrúar Úkraínu og Rússlands hittust í Istanbúl til að ræða frið milli ríkjanna. Lítið hefur gerst í diplómatískum viðræðum síðan þá. Athygli fjölmiða hefur í miklum mæli færst til átakanna milli Írans og Ísraels.

Þrátt fyrir það geisa átökin í Austur-Evrópu enn. Áðurnefnd árás er aðeins eitt dæmi um fjölda dróna- og eldflaugaárása sem gerðar hafa verið í Úkraínu undanfarna daga.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði t.a.m. í gærmorgun að Rússar hefðu hafið á loft 352 drónasprengjur og 16 eldflaugasprengjur. Hluti drónanna hefði verið hannaður af Írönum og bráðabirgðarannsókn benti til þess að hluti vopnanna hefði komið frá Norður-Kóreu.

Hitti konung Bretlands

Selenskí lenti í Lundúnum í gær en þangað var hann kominn til þess að hitta Karl Bretakonung og Keir Starmer forsætisráðherra landsins. Úkraínuforseti snæddi hádegisverð með Bretakonungi í Buckingham-höll.

Bretar hafa verið meðal sterkustu bakhjarla Úkraínumanna síðan innrás Rússa hófst í byrjun árs 2022. Þeir hafa veitt samherjum sínum talsvert af hergögnum og beitt Rússa þrýstingi með viðskiptaþvingunum.

Búast má við því að málefni Úkraínu verði rædd á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fer fram í Haag í Hollandi í dag og á morgun. Þar verða 32 leiðtogar NATO-ríkja viðstaddir. floki@mbl.is