Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Það tíðkast víða í borginni að stórum ökutækjum, húsbílum og þess háttar, sé lagt í íbúðagötur þar sem þau eru látin standa vikum og mánuðum saman,“ segir Helgi Áss Grétarsson, fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hann er flutningsmaður tillögu sjálfstæðismanna á borgarstjórnarfundi í dag um að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að leggja til breytingar á reglum, í því skyni að tryggja skilvirka lagaframkvæmd um hvernig ökutæki og lausamunir sem hafa án heimildar verið um langa hríð í borgarlandinu verði fjarlægðir. Starfshópurinn skal einnig móta stefnu um stæði fyrir stóra bíla og með hvaða hætti sé hægt að tryggja nægilegt framboð af slíkum stæðum í hverfum borgarinnar.
Í tillögunni kemur fram að skrifstofa borgarstjórnar í samráði við viðeigandi fagaðila borgarkerfisins skuli skipa starfshópinn sem taki til starfa eigi síðar en 15. ágúst nk. og ljúki störfum fyrir árslok 2025.
Á sama stað í sex vikur
Helgi bendir á að við Gunnarsbraut í Norðurmýri hafi húsbíl verið lagt í kringum 10. maí án þess að vera hreyfður síðan. Áður hafi hann staðið vikum saman annars staðar í götunni.
Spurður hvort gist sé í húsbílnum segir Helgi að hann hafi engar upplýsingar um slíkt. Bíllinn sé fyrirferðarmikill í umhverfinu og á facebook-síðu hverfisins hafi íbúar bent á að staðsetning bílsins hindri sýn á gatnamótum Bollagötu og Gunnarsbrautar og skapi hættu. Á sömu síðu hefur eigandi bílsins verið góðfúslega beðinn að færa hann annað.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar áminnti bíleigandann 2. júní um að flytja ökutækið með miða á rúðu og hafi það ekki verið gert fyrir 16. júní verði hann fjarlægður, tekinn í vörslu í 30 daga eða honum fargað.
Vill vekja fólk til umhugsunar
Helgi segir að um sé að ræða flókið mál lagalega.
„Heilbrigðiseftirlit hefur heimild til að fjarlægja númerslausa bíla og lausamuni. En hvað á að gera með bifreiðar sem eru skráðar? Lögreglan gæti á grundvelli lögreglusamþykktar fjarlægt slíka bíla en það er samt ekki alveg skýrt. Þannig að grunnhugmyndin að baki tillögunni er að fá umræðu um þessi mál og að skipaður verði starfshópur til að finna leiðir til að gera þetta skilvirkara. Þetta er ekki bara öryggismál heldur er verið að taka stæði af íbúum hverfisins svo vikum og mánuðum skiptir.“
Helgi leggur fram tillöguna til að vekja fólk til umhugsunar og leita leiða til að leysa vandann.