Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Reykjavíkurborg hyggst setja af stað tilraunaverkefni um flokkun sorps í borgarlandinu. Verkefnið var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði á dögunum og verður því hleypt af stokkunum á næstunni.
Í umfjöllun um þetta verkefni í umhverfis- og skipulagsráði nýlega kom fram að það kemur í kjölfar tillögu sem samþykkt var á síðasta ári um að ganga lengra í úrgangsflokkun í almannarými. Hugmyndin með verkefninu er að greina bestu leiðir til flokkunar í almannarými til að auðvelda ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag í borginni.
Reykjavíkurborg hefur síðustu ár verið með sorpflokkunarílát á fjölförnum stöðum þar sem fólk getur flokkað pappa, plast, flöskur og dósir auk almenns úrgangs. Í greinargerð kemur fram að árangurinn af þessari flokkunaraðferð hefur verið ófullnægjandi; efnið sem þaðan kemur hefur ekki talist hæft til endurvinnslu og því endað sem almennur úrgangur.
Tilraunaverkefnið felur í sér að notuð verða stærri ílát með áberandi og skiljanlegum merkingum. Gerður verður samanburður á tvenns konar fyrirkomulagi. Annars vegar verður fjögurra tunnu kerfi þar sem hægt er að flokka almennt rusl, plast, pappír og pappa og málma og gler. Hins vegar verður tveggja tunnu kerfi með tunnu fyrir almennt sorp og endurvinnslutunnu þar sem svokölluð þurrefni; plast, pappi, málmar og gler eru flokkuð saman.
Þetta nýja kerfi verður prófað á fjórum stöðum. Við strætóstöðina við Háskóla Íslands við Hringbraut verður tveggja tunnu kerfi en við strætóstöðina við Miklubraut hjá Kringlunni verður fjögurra tunnu kerfi. Þá verður fjögurra tunnu kerfi við grillaðstöðuna í Hljómskálagarðinum og tveggja tunnu kerfi við grillaðstöðuna á Klambratúni.