Gufunes Fórnarlambið var skilið eftir á leiksvæði nær dauða en lífi.
Gufunes Fórnarlambið var skilið eftir á leiksvæði nær dauða en lífi. — Morgunblaðið/Karítas
Þau fimm sem ákærð eru fyrir að hafa beitt 65 ára karlmann hrottafengnu ofbeldi 10. mars sl. neita öll sök. Fórnarlamb þeirra, Hjörleifur Haukur Guðmundsson, lést skömmu síðar af sárum sínum. Þurfti hann að þola frelsissviptingu, gróft ofbeldi og pyntingar af hálfu hinna ákærðu

Þau fimm sem ákærð eru fyrir að hafa beitt 65 ára karlmann hrottafengnu ofbeldi 10. mars sl. neita öll sök. Fórnarlamb þeirra, Hjörleifur Haukur Guðmundsson, lést skömmu síðar af sárum sínum. Þurfti hann að þola frelsissviptingu, gróft ofbeldi og pyntingar af hálfu hinna ákærðu.

Ákærur gegn fjórum karlmönnum og einni konu voru þingfestar fyrir Héraðsdómi Suðurlands í gærmorgun. Þrír þessara einstaklinga eru undir tvítugu. Eru þau ákærð fyrir frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp í kjölfar stórfelldrar líkamsárásar.

Þeir Stefán Blackburn, Lúkas Geir Ingvarsson og Matthías Björn Erlingsson eru ákærðir fyrir manndráp og fjárkúgun, en Alexander Óðinn Jóhannesson fyrir peningaþvætti og Rakel Björk Heimisdóttir fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og rán.

Fram kemur í ákæru að hinir ákærðu hafi svipt Hjörleif Hauk frelsi sínu að kvöldi mánudagsins 10. mars í um fimm klukkustundir og beitt hann ofbeldi í því skyni að ná af honum fjármunum. Voru meðal annars fimm tennur brotnar/dregnar úr honum. Hjörleifur Haukur hlaut fjöláverka um nær allan líkama, en banvænir áverkar voru veittir á höfði.

Ekið var með Hjörleif Hauk að leiksvæði á Gufunesi í Reykjavík þar sem ofbeldið hélt áfram. Var hann að lokum skilinn þar eftir, nær dauða en lífi, á nærfötunum. Hjörleifur Haukur lést á sjúkrahúsi skömmu síðar.